Eignatilfærslan mikla

Um daginn var ég að rýna í greiðsluseðilinn af íbúðaláninu mínu og rak þá augun í að lánið hafði lækkað vegna verðhjöðnunar. Einhvern veginn hafði maður ímyndað sér að verðhjöðnun væri bara til í ævintýrunum – en vissulega getur þessi staða komið upp og verðtryggingin því komið til lækkunar lána… þótt það sé klárlega fágætt lúxusvandamál.

Í tengslum við þetta hefur síðunni borist aðsend grein um verðtryggingu til birtingar undir dulnefni. Ég minnist þess ekki að hafa áður birt slíkan gestapistil á þessu bloggi, en látum vaða:

Hér verður rætt um eignatilfærsluna sem verðtryggingin hefur valdið í íslensku samfélaginu.

 

En fyrst er rétt að skilgreina verðtryggingu:

 

Verðtryggingin er trygging lánveitenda fyrir því að lán rýrni ekki. Verðbætur eru í raun aðeins vextir sem við borgum ekki, heldur lánar bankinn okkur fyrir þeim (góðfúslega) og hækkar höfuðstóllinn sem því nemur.

 

Fyrstu viðbrögð seðlabanka austan hafs og vestan við fjármálakrísunni voru að lækka stýrivexti. En á Íslandi var þessu öfugu farið – stýrivextirnir voru hækkaðir.

 

Í Noregi kom kreppan aldrei. Þar býr fólk við sveigjanlega vexti á íbúðalánum sínum. Allt í einu höfðu Norðmenn meiri peninga milli handanna, það hélt áfram að borga niður höfuðstólinn en borgaði minna í vexti. Afganginn notaði fólk í hitt og þetta. Það gat mætt samdrætti í tekjum sínum eða hreinlega eytt meiru. Eyðslan skilaði norska ríkissjóðnum frekari tekjum í formi neysluskatta.

 

Á Íslandi hækka vextir, skattar hækka, laun lækka. Fólk þarf  að borga vexti, það fær minni útborguð laun vegna hækkaðra launaskatta og að lokum fæst minna fyrir peninginn vegna gríðarlegra verðhækkana.

 

Seðlabankar gegna yfirleitt tvenns konar hlutverki: Að lágmarka bæði verðbólgu og atvinnuleysi. Misjafnt er eftir löndum og seðlabankastjórum hvor þátturinn hefur meira vægi. Í Evrópu hefur verðbólga verið lítil. Þar einblína seðlabankar á að lágmarka atvinnuleysi. Það er gert með því að lækka vexti svo atvinnulífið og heimili hafi aðgang að ódýru lánsfé. Á hinn bóginn virðist seðlabankinn á Íslandi fyrst og fremst hafa áhyggjur af verðbólgunni og heldur uppi háum vöxtum til að reyna ná henni niður.

 

En hvað er að gerast á Íslandi? Vörur hafa hækkað mikið vegna þess að Ísland er lítið hagkerfi sem byggir allt sitt á innflutningi, allir þættir atvinnulífsins eru stórkostlega háðir innflutningi. Og þegar krónan fellur um tugi prósenta, hækka bæði innfluttar vörur og innlendar.

 

Þetta er búið og gert. Er hugsun Seðlabanka Íslands sú að háir stýrivextir muni færa vöruverð aftur til verðlags ársins 2008? Nei, það var einfaldlega leiðrétting á of háu gengi. Of háir stýrivextir til lengri tíma gera ekkert annað en að draga allan þrótt úr atvinnulífinu.

 

Seðlabankar horfa á framleiðsluslaka (e. output gap), sem er fræðilegur munur á náttúrulegri framleiðslugetu hagkerfis og raun framleiðslu. Og reyna þannig að ákveða hvort vextir séu háir eða lágir. Erfitt er að mæla framleiðsluslaka enda veit enginn almennilega hver hin sanna framleiðsla eigi að vera. En þegar við höfum tíunda hvern mann án atvinnu, þá vitum við að við höfum töluverðan slaka frá ,,hinu sanna” ástandi.

 

Við hljótum því að spyrja okkur af hverju vextir eru ekki lægri en raun ber vitni? Svarið er tvíþætt. Gjaldmiðillinn er svo brothættur að borga þarf fjármagnseigendum himinháa vexti í þóknun svo þeir yfirhöfuð fáist til þess að eiga íslenskar krónur. Og það er mæld verðbólga sem segir seðlabankanum að það eigi að hafa háa vexti (að minnsta kosti hærri en mælda verðbólgu).

 

En hver er mæld verðbólga?

 

Venjubundin hugsun um orsakir hárrar verðbólgu felur í sér þensluástand. Þá er hagkerfið farið að ofhitna og við farin að færa okkur frá náttúrulegri framleiðslugetu yfir í þanda framleiðslugetu. Með öðrum orðum: Við vinnum of  mikið og kaupum of mikið.

 

En það er engin þensla á Íslandi, heldur hækkar verðbólgan á Íslandi vegna fjölmargra þátta: Innflutningsverðlag hefur hækkað mikið, sem hefur leitt til þess að innfluttar vörur eru dýrari og einnig íslenskar vörur vegna hærra verðlags aðfanga. Ríkið er því sem næst gjaldþrota og hefur ákveðið að hækka þjónustugjöld og gjaldskrár opinberra fyrirtækja.

 

Munu hærri stýrivextir snúa þessari þróun við? Munu smásalar lækka vörur sínar niður í fyrra horf. Munum við sjá Orkuveituna lækka aftur gjaldskrá sína? Svarið er auðvitað nei. Hærri vextir munu ekkert breyta því sem komið er. Vöruverð mun ekkert lækka til fyrra horfs. Við sitjum þess vegna uppi með tilfærslu í verðlagi sem Hagstofan réttilega mælir sem verðbólgu.

 

Afleiðingin gríðarleg eignatilfærsla í þjóðfélaginu frá þeim sem skulda til þeirra sem eiga. Þessi eignatilfærsla verður til vegna þess að við mælum verðbólgu eins og við mælum hana. Þegar engin þensla er, segjumst við samt vera með verðbólgu.

Laun eru ekkert að hækka, einkaneysla er ekkert að aukast. dVerðbólgan er innflutt frá útlöndum. Munu háir vextir lækka heimsmarkaðsverð á olíu? Lækka skuldir ríkis og sveitarfélaga? Lækka þjónustugjöld opinberra aðila? Svarið er auðvitað nei. Það er galin hugmynd að ætlast til þess að stýrivextir á Íslandi muni hvetja AEG til að lækka verð á þvottavélum.

 

Í þessu ástandi horfi ég á verðtryggða húsnæðislánið mitt vera komið í 157% af verði íbúðarinnar.

 

Hverjir græða og tapa á þessu ástandi?

 

Við sem skuldum verðtryggt töpum. Eignir okkar færast til þeirra sem eiga verðtryggt fjármagn. Hér á landi hefur orðið gríðarleg eignatilfærsla frá skuldurum til fjármagnseigenda. Þessi tilfærsla kemur einna verst við okkur sem keypt höfum húsnæði á síðastliðnum 5 árum. Sérstaklega er staðan slæm hjá fólki sem keypti fasteign fyrir 2-3 árum. Helstu eigendur verðtryggðra eigna eru lífeyrissjóðirnir. Þeir fitna nú eins og púkinn á fjósabitanum.

 

En er ekki bara gott að lífeyrissjóðirnir fitni? Eigum við ekki öll lífeyrissjóðina?

 

Þessi klisja er ein sú hin mest ofnotaða í umræðunni á Íslandi. Fólk sem nýkomið er út á vinnumarkaðinn á í raun ekkert í lífeyrissjóðunum, heldur þeir sem mestar hafa haft tekjurnar. Hér er lögð sú krafa á ungt vinnandi fólk að ekki aðeins beri því að greiða í lífeyrissjóði til að standa undir lífeyrisgreiðslum til hinna eldri og ríkari, heldur er gert eignarná í húsnæði þess svo unnt sé að flytja meira fé til þeirra sem eiga mikið. Verðtryggingin felur þennan vanda og við tökum varla eftir því að á hverjum degi töpum við. Á endanum töpum við aleigunni. Það er við þessar aðstæður sem ungt fólk á Íslandi ákveður hvort það muni flytja aftur heim eða flytja út.

 

Það má vera að það sé vinstristjórn við völd. En fjármagnseigendur ráða öllu sem fyrr.

– E.