Á spurningalista DV fyrir stjórnlagaþingið voru margar spurningar sem óþægilegt var að svara án rökstuðnings, þar sem einfalt já eða nei átti ekki við. Í öðrum tilvikum hlaut svar við spurningum að skilyrðast af því til hvaða annarra ráða væri gripið. Einhvern veginn tókst mér þó að klóra mig í gegnum listann og var svona þokkalega sáttur við svörin.
Nema einni spurningunni neitaði ég að svara, þeirri um kjördæmaskipan.
Það eina sem ég fyrirfram tilbúinn að útiloka í því efni eru einmenningskjördæmi. Að öðru leyti fer það eftir útfærslu á kosningakerfi hvort rétt væri að halda kjördæmunum óbreyttum, fækka þeim eða jafnvel fjölga.
Krafan um að gera landið að einu kjördæmi hefur lengi verið hávær, þótt flestir séu sammála um að sú útfærsla gangi varla með óbreytt kosningakerfi að öðru leyti. Hins vegar gætu yfirvofandi kosningar reitt hugmyndinni um eitt kjördæmi þungt högg. Fari svo að landsbyggðin verði að mestu sniðgengin í kjörinu, yrði það stóráfall fyrir þessa útfærslu.
Núverandi kjördæmaskipan hefur bæði kosti og galla. Það er kostur að kjördæmin séu viðlíka stór að þingmannatölu. Stöðugleiki í kjördæmaskiptingu er líka almenningi í hag. Gallarnir eru ýmsir. Þannig hefur skipting Reykjavíkur aldrei náð að festa sig almennilega í sessi í hugum fólks. (Kannski vegna þess að borgarbúum er tamara að hugsa um austur og vestur sem höfuðáttir í Reykjavík?)
Enn ein útfærslan, sem mér þætti vel koma til greina, væri einhvers konar útfærsla með landskjörnum fulltrúum til viðbótar við kjördæmaskipta kosningu. Þannig væru uppbótarmennirnir af landslista (og minni framboð gætu verið í kjöri í einstökum kjördæmum án þess að tefla fram frambjóðendum). Þetta kerfi væri ekki svo ólík því sem tíðkaðist hér á landi fram á lok sjötta áratugarins og sem Skotar notast við í dag – þó án einmenningskjördæmanna.