Skringifréttin

Skringifrétt dagsins birtist í Mogganum (raunar er samstofna frétt á Vísi líka), sem báðar eru endursagnir á frétt í Telegraph þess efnis að við erfðafræðirannsóknir hefði komið í ljós að hópur Íslendinga eigi formóður af ætt amerískra frumbyggja. Hægt er að rekja þetta aftur til konu sem uppi var á suðaustanverðu landinu í byrjun átjándu aldar.

Af þessu er dregin sú skrautlega ályktun að víkingar á elleftu öld hljóti að hafa flutt með sér indíána til Íslands sem aukið hafi kyn sitt hér. Hvers vegna þá? Jú – vegna þess að Ísland hafi verið svo einangrað á seinni hluta miðalda og fram eftir nýöld að ekki geti verið um blöndun úr þessari áttinni að ræða þá.

Auðvitað er miklu rökréttara að álykta sem svo að indíánablóðið hafi borist til Íslands á sextándu eða sautjándu öld. Samskipti Íslendinga við erlendar þjóðir voru alla tíð mun meiri en margur heldur. Goðsögnin um hið einangraða og erfðafræðilega hreina Ísland er hins vegar lífseig og styrktist í sessi fyrir tilstuðlan líftæknifyrirtækja á borð við Íslenska erfðagreiningu.

Þeir sem telja að hér sé komin sönnun fyrir tilvist indíána-víkingaprinsessu frá miðöldum verða að líkindum fyrir vonbrigðum.