Eldflaugavarnarkerfi

Gamall draugur minnti á sig um helgina. Á Nató-fundi í Lissabon var vikið að draumi stjórnenda bandalagsins um að koma upp gagneldflaugakerfið (sem er 21.aldar heitið á því sem Reagan-stjórnin kallaði Stjörnustríðsáætlun). Þessu hefur verið slegið upp sem nýjum fréttum og stefnubreytingu hér heima. Þannig virðast bæði stuðningsmenn og andstæðingar ríkisstjórnarinnar hafa verið jafn grallaralausir um málið og nota það nú til að slá pólitískar keilur.

Þetta er enn ein áminingin um hvað minni manna er oft lélegt þegar kemur að pólitík. Gagneldflaugakerfið var nefnilega samþykkt í prinsipinu á Nató-fundi vorið 2008 í Búkarest. Við í Samtökum hernaðarandstæðinga sendum frá okkur harðorðar ályktanir í kjölfar þessa fundar, þar sem við lögðumst yfir samþykktir fundarins og bentum á að þar hefði m.a. verið samþykkt að hvetja öll aðildarríki til að auka framlög sín til hermála, stuðningi við gagneldflaugakerfið lýst með býsna afdráttarlausum hætti o.s.frv. Aðeins einn fjölmiðill virtist hafa fyrir því að lesa samþykktir fundarins: Viðskiptablaðið.

Að öðru leyti fjallaði umfjöllun íslenskra blaða og ljósvakamiðla um Búkarest-fundinn aðeins um tvennt. Í fyrsta lagi þá staðreynd að íslensku ráðherrarnir flugu á einkaþotu til Rúmeníu, með vangaveltum um hvort það hafi verið dýrara eða ódýrara en aðrir kostir. Í öðru lagi var fjallað um það hvort íslenska sendinefndin hefði náð að ræða við marga erlenda valdsmenn um efnahagshorfur Íslands, sem fóru heldur dökknandi.

Margt bendir til að íslensku fulltrúarnir á Búkarest-fundinum, þar sem ákvörðunin um gagneldflaugakerfið var tekin, hafi verið svo uppteknir af fundum í hliðarsölum um óskyld efni að þeir hafi ekkert veitt því athygli hvað verið var að samþykkja. Þannig kom Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra í Kastljóssviðtal skömmu síðar, þar sem spyrillinn (sem hafði greinilega rekið augun í einhverjar fréttir um málið) spurði hana út í þessar samþykktir Nató. Ráðherra virtist koma af fjöllum og harðneitaði því að nokkuð í þá veru hefði verið ákveðið.

Neitun Ingibjargar Sólrúnar var svo afdráttarlaus að ég trúi því ekki að hún hafi verið að ljúga. Hún vissi hreinlega ekki betur. Spyrillinn var greinilega ekki sérstaklega undirbúinn fyrir þessa spurningu og sneri sér því strax að næsta máli. Svona er málum því miður ansi oft háttað þegar kemur að starfi Íslands innan Nató og annarra alþjóðastofnanna.