17. júní 1999. Fram U23 3 : Grindavík 3 (7:6 eftir vítaspyrnukeppni)
Ég hef einu sinni fengið hraðasekt. Það var á heimleið úr Garðinum eftir tap. Það er freistandi að kenna leiknum um hraðaksturinn, þótt skýringin hafi líklega fremur verið sú að eftir greiðan og hraðan akstur eftir Reykjanesbrautinni er heilinn einhvern veginn ekki stilltur inn á innanhverfishraðamörkin í Vesturbænum.
Þetta var kvöldið fyrir þjóðhátíðardaginn og Fram dottið út úr bikarnum strax í 32-liða úrslitum, sem er alltaf óstuð. Drátturinn var reyndar hundleiðinlegur – Víðir í Garði á útivelli. Víðismenn voru í næstefstu deild og virtust ætla að verða spútnikliðið, þótt þeim fataðist síðar flugið og féllu um haustið.
Ég fór á völlinn ásamt Ágústi Haukssyni félaga mínum og okkur var ekki skemmt að sjá gamla jálkinn Grétar Einarsson koma Víði í 2:0. Framarar jöfnuðu en náðu ekki að klára dæmið og Víðir sigraði í vítakeppni. Þetta var einn af þessum leikjum þar sem manni fannst eins og „stóra liðið“ hlyti að vinna ef það bara nennti að skipta upp um gír. Hollenski framherjinn Marcel Oerlemans var venju fremur latur, pirraður og slappur. Ef til vill hefði ég átt að senda honum reikning fyrir sektinni?
Við Gústi vorum sérlega spældir yfir tapinu vegna þess að okkur sýndist Framliðið ætla að sigla lygnan sjó í deildinni (enduðum reyndar í tómri fallbaráttu) og að bikarkeppnin yrði því helsta kryddið í tilveruna. Engu að síður ákváðum við að mæta aftur á völlinn næsta dag, í það sinnið á Valbjarnarvöll að horfa á U23-ára lið Fram taka á móti úrvalsdeildarliði Grindavíkur.
Það voru ekki margir á vellinum, enda margt annað í boði klukkan tólf á 17. júní en að sjá ungmennalið tapa fyrir mun sterkara liði úr efstu deild. Og þetta var svo sannarlega ungmennalið Framara. Ásgeir Elíasson hafði ekki leyft sér að spara neina yngri leikmenn gegn Víði til að eiga þá til góða á móti Grindavík (enda gáfu úrslitin svo sem ekki tilefni til þess).
Eftir tíu mínútur skoraði Grétar Ólafur Hjartarson fyrir gestina. Svona fór um sjóferð þá – hugsaði maður og vonaðist til þess að úrslitin yrðu ekki afhroð. En tveimur mínútum síðar jafnaði Arngrímur Arnarson. Hann hafði komið frá Völsungi fyrir tímabilið en fékk fáa sénsa. Í mörg ár gaf ég mér að hann hlyti að vera bróðir Ásmundar markahróks og núverandi Fylkisþjálfara, enda hlytu allir Húsvíkingar með svipuð föðurnöfn að vera bræður. Sú staðreynd að annað sé Arnarson en hinn Arnarsson fór alveg undir radarinn.
Framstrákarnir vörðust vel og Grindvíkingar urðu sífellt pirraðri. Til marks um óánægju Mílans Jankovic þjálfara gerði hann tvöfalda skiptingu í hálfleik, þar sem hann setti m.a. inná kantmanninn Mijuskovic sem augljóslega hafði staðið til að hvíla í leiknum.
Eftir klukkutíma leik skoraði Sinisa Kekic fyrir Grindavík. Það var ekkert óvænt. Einhvern veginn skoraði Kekic ALLTAF gegn okkur Frömurum. Ætli Kekic komist ekki á topp-5 listann yfir flottustu andstæðingana í íslenska boltanum? Sérstaklega sá eiginleiki hans að skipta vandræðalaust frá því að vera beittasti sóknarmaður síns liðs yfir í að binda saman vörnina – jafnvel í sama leiknum.
Jæja, þá er þetta endanlega búið – hugsaði maður. En nei, rúmum tíu mínútum síðar jafnaði Haukur Snær metin. Haukur er einmitt litli bróðir Gústa og hefur áður komið til umfjöllunar í þessum greinarkornum. Ég veit ekki hvort það kom nægilega skýrt fram þar að Haukur er mjög lágvaxinn. Ójá!
Þegar þarna var komið við sögu voru stjörnurnar úr Grindavík orðnar verulega pirraðar, eins og sást á harðari tæklingum og auknu tuði í dómaranum. Ekki urðu þeir svo kátari þegar Eggert Stefánsson kom Fram yfir tíu mínútum fyrir leikslok. Eggert er bróðir Ólafs handboltakappa og Jóns Arnórs körfuboltamanns. Hann var kominn á mála hjá ensku liði, gott ef ekki Ipswich (þú leiðréttir mig þá Gunnar Sigurðarson ef ég er að bulla) þegar meiðsli fokkuðu upp ferlinum. Eggert hefði orðið heimsklassavarnarmaður ef skrokkurinn hefði ekki þvælst fyrir.
Það var þjóðhátíðarstemning hjá okkur Frömurunum á pöllunum sem sáum fram á sögulegan sigur. Helvítið hann Scott Ramsey (sem hefði átt að vera farinn út af fyrir fantatæklingu) kippti okkur þó niður á jörðina með jöfnunarmarki á lokamínútunum. Það er annar andstæðingur sem ég hef aldrei komist hjá því að dást að.
Við tók stressandi framlenging með nauðvörn af hálfu Framara sem stefndu á vítaspyrnukeppni. Það gekk eftir og Framarar komust áfram – unnu vítakeppnina 4:2! Ekki man ég hverjir skoruðu eða klikkuðu (ég er e.t.v. óður en þó ekki snargalinn) og ekki get ég slegið því upp: leikskýrslurnar á KSÍ-vefnum tiltaka ekki markaskorara í vítakeppnum, þótt undarlegt kunni að virðast. Og ekkert dagblaðið sendi fréttaritara á vettvang, enda svo sem fátt sem benti til að tíðinda væri að vænta af leiknum. Ég get því ekki annað en látið mig dreyma um að Sinisa Kekic eða Scott Ramsey hafi klúðrað víti – helst báðir! Það ætti að kenna þeim helvískum!
(Mörk Fram U23: Arngrímur Arnarson, Haukur Snær Hauksson, Eggert Stefánsson. Mörk Grindavíkur: Grétar Ólafur Hjartarson, Sinisa Kekic, Scott Ramsey)