28. september 2000. Hearts 3 : Stuttgart 2
Mitt Kennedy/Lennon/Díönu-móment var 31. október 1984 þegar ég heyrði fréttirnar af morðinu á Indiru Gandhi. Ég var níu ára og kominn með brennandi áhuga á fréttum, pólitík og heimsmálunum. Þennan dag lá ég veikur heima með flensu, þegar ég heyrði fréttirnar í útvarpinu. Mér fannst sem allt breyttist og að nú hlytu að verða straumhvörf í mannkynssögunni.
Síðar leit pabbi heim úr vinnunni til að tékka á mér og gefa mér að éta – nánast um leið og ég heyrði útidyrahurðinni skellt hljóp ég á móti honum hrópandi: „Indira Gandhi er dáin! Idira Gandhi er dáin!“ Ég man enn vonbrigði mín og furðu yfir að hann kippti sér ekkert sérstaklega upp við fréttirnar. Eftir á að hyggja var ég kannski frekar nördalegt barn.
En morðið á Indiru Gandhi hafði þær óvæntu aukaafleiðingar að ég get tímasett nálega upp á dag hvenær ég byrjaði að halda með ýmsum evrópskum liðum. Ég notaði nefnilega tímann í veikindunum til að raða upp stöðunni í öllum enskum og skoskum deildum með hjálp sérstaks spjalds sem fylgt hafði með blaðinu Shoot! og hafði að geyma litla flipa með nöfnum allra liða ásamt helstu hagtölum. Jafnframt ákvað ég að velja mér uppáhaldsfélög í öllum helstu deildum og löndum þar sem ég hafði ekki þá þegar komið mér upp liði.
Ég valdi Hearts í Skotlandi. Að hluta til vegna þess að mér fannst vínrauði búningurinn töff og að hluta til vegna þess að plakat af Hearts hafði fylgt með nýlegu hefti af annað hvort Shoot! eða Match og John Robertson virtist vera aðaltöffarinn. Upp frá því fylgdist ég alltaf með Hearts útundan mér. Var þó ekki harðari stuðningsmaður en svo að ég nennti ekki á leik ÍBV og Hearts í forkeppni UEFA-keppninnar sem fram fór á Laugardalsvellinum haustið 2000.
Fáeinum vikum síðar hélt ég til framhaldsnáms í Edinborg. Í leigubílnum á leið á gistiheimilið fór ég að spjalla við leigubílsstjórann um fótbolta. Hann var Hearts-maður og sagði að ég yrði að skella mér á völlinn tveimur dögum síðar á leik í Evrópukeppninni, það væri enn hægt að fá miða. Með sigrinum á Eyjamönnum hafði Hearts nefnilega tryggt sér einvígi gegn Stuttgart í fyrstu umferð aðalkeppninnar.
Leikurinn í Þýskalandi var að baki og fór 2:1 fyrir Stuttgart. Útivallarmörk eru dýrmæt í Evrópukeppni, svo staða Skotanna var ágæt. Ég mætti snemma til að skoða svæðið umhverfis Tynecastle Stadium. Nældi mér í leikskrá, hefti með níðsöngvum um Hibernian og sá fjölda götusala sem allir buðu upp á misljóta trefla með nöfnum og merkjum Hearts og Stuttgart sem sérútbúnir voru sem minjagripir fyrir leikinn. Mikið hlýtur svona framleiðsla að vera ódýr til að geta borgað sig.
Tyncastle er þröngur völlur sem býður upp á góða stemningu, með áhorfendur alveg ofan í vellinum. Á þessum leikvöngum fær maður alltaf á tilfinninguna að grasflöturinn hljóti að vera ólöglega lítill. Áhorfendur voru í miklu stuði og Hearts blés til sóknar.
Það var fullt af flottum leikmönnum í þessu Hearts-liði sem Jim Jeffries þjálfaði. Fyrirliðinn Colin Cameron var í mestu uppáhaldi áhorfenda. Það var bara tímaspursmál hvenær hann yrði seldur til stærra liðs og stuðningsmennirnir vonuðu bara að það yrði eitthvert úrvalsdeildarliðið sunnan landamæranna en ekki helvítis Celtic eða Rangers. Svo fór þó að lokum að Cameron gekk til liðs við Wolves en varð aldrei sú stjarna sem vonir stóðu til.
Gary Locke, núverandi stjóri Hearts, var í framlínunni. Thomas Flögel, góður austurrískur leikmaður, var á miðjunni. Antti Niemi var í markinu, en hann lék lengi með Southampton. Steven Pressley var kóngurinn í vörninni og í annarri bakvarðarstöðunni var Gary Naysmith, síðar leikmaður Everton um árabil.
Það var einmitt Naysmith sem kom Hearts yfir snemma leiks. Staðan 2:2 í einvíginu og Hearts á leiðinni áfram á útivallarmarki! Stuttgart-liðið, með Búlgarann Krasimir Balakov sem skærustu stjörnu, fór að sækja meira og jöfnaði metin undir lok hálfleiksins. Eftir hlé var leikurinn í jafnvægi en Stuttgart skoraði aftur eftir klaufagang í Hearts-vörninni og einvígið virtist tapað. Heimamenn þurftu að skora þrívegis til að komast áfram.
Goran Petric jafnaði um hæl, 2:2, en enn var langt í land. Þegar tæpar tíu mínútur voru eftir dró til tíðinda. Hearts fékk víti. Einn Þjóðverjinn var rekinn útaf og Cameron skoraði úr vítaspyrnunni. Mínútu síðar ákvað Thomas Schneider, sem nýverið var rekinn sem knattspyrnustjóri Stuttgart, að skynsamlegt væri að rífast yfir gulu spjaldi þannig að hann fékk rautt fyrir tuð. Hearts var nú með ellefu menn á móti níu og hafði fimm mínútur til að skora eitt mark í viðbót.
Sóknin var þung. Stuttgart raðaði öllum sínum mönnum inn í vítateiginn og Hearts fékk hverja hornspyrnuna á fætur annarri. En allt kom fyrir ekki. Markið mikilvæga lét ekki sjá sig og þeir vínrauðu voru rændir frægum sigri. Allir héldu grútspældir heim, en þó stoltir yfir góðri frammistöðu.
(Mörk Hearts: Gary Naysmith, Goran Petric, Colin Cameron. Mörk Stuttgart: Ahmed Hosny, Marcelo Bordon)