Grunnskóli bandaríska hersins á Keflavíkurflugvelli er búinn að uppgötva Rafheima. Á gegnum tíðina hafa komið nemendur af Vellinum, en að þessu sinni bókaði heill árgangur – fjórar bekkjardeildir sig í heimsókn og fyrsti hópurinn var að fara út úr dyrunum, hæstánægður.
Besti bloggarinn er líka sáttur. Það er alltaf gaman að taka á móti þessum hópum. Bandarísku krakkarnir eru yfirleitt leiftrandi af áhuga, mæta með opnum huga í stað þess að búa sig undir leiðindi og þau eru hlýðin án þess að vera bæld eða þora ekki að leika sér.
Þessir krakkar voru líka klæddir eins og krakkar. Fötin voru greinilega vel til þess fallin að leika sér í þeim og ærslast. Strákarnir voru ekki faldir inni í hettupeysum og rapparahúfum og stelpurnar ekki málaðar og í magabolum með G-strengi lengst upp á bak. Kannski er ég íhaldskurfur, en mér finnst betra að 11-12 ára krakkar líti út eins og börn.
Það voru heldur engir hamborgararassar í þessum hópi, en stundum koma hingað krakkar sem eru óhugnanlega feitir og munu augljóslega lenda í miklum vandræðum vegna þess í lífinu. – En þótt börnin hafi verið brilliant náði ein mamman í hópnum að stela senunni.
Hún var mjög áhugasöm og blandaði sér mikið inn í fyrirlesturinn minn með spurningum sem sýndu nánast aðdáunarvert skilningsleysi. Hápunkturinn var þó eftir að ég hafði útskýrt í löngu máli hvernig rangar kenningar um dýrarafmagn og tilraunir á froskum leiddu til þess að Volta fann upp rafhlöðuna. Þetta þótti frúnni stórmerkilegt og spurði hvernig stæði á því – úr því að mönnum hefði tekist fyrir mörghundruð árum að vinna rafmagn úr hrygg froskdýra, hvers vegna væri rafmagnsfræðin þá ekki búin að finna lækningu við mænuskaða? …hvernig svarar maður svona spurningum?
En skyldi skólastjórinn á Vellinum vita að hann er að stefna ungum og áhrifagjörnum sálum í heimsókn til formanns Samtaka herstöðvaandstæðinga?
* * *
Og talandi um Samtök herstöðvaandstæðinga. Spjallfundur fyrir herstöðvaandstæðinga á léttasta skeiði og aðra áhbugasama á Vídalín á miðvikudagskvöld kl. 20:30. Lesið allt um málið á Friðarvefnum.