10. janúar 2010. Angóla 4 : Malí 4
Stóra tromp handboltaíþróttarinnar er að stórmótin fara fram í janúar í seinni tíð. (Öfugt við t.d. HM á Íslandi 1995 sem var leikið meðan ég var í stúdentsprófum.) Í janúar er ekkert við að vera og því tilvalið að horfa á keppni í tvígripi, hrindingum og ruðningi.
Afríkukeppnin í fótbolta er sama marki brennd. Hún fer fram í janúar og nýtur þess að Meistaradeildin er í fríi og flestar helstu deildarkeppnir í lausagangi. Og af því að hún er alvöru álfukeppni er lítið mál að koma sér upp áhuga. Afríkukeppnin 2010 fór fram í Angóla og var að margra mati hálfgerð generalprufa fyrir HM í Suður-Afríku síðar þetta sama ár.
Eurosport sýndi beint frá mótinu og ég var með áskrift. Um þessar mundir var dóttir líka á barnasundnámskeiði hjá sunddeild KR í Austurbæjarskóla ásamt Freyju vinkonu sinni. Það var sérlega hentugt að sitja yfir sundæfingunni ásamt Frey Rögnvaldssyni og fá svo þau feðginin í heimsókn eftir æfinguna, þar sem stelpurnar léku sér saman og við Freyr horfðum á boltann og lögðum drög að kvöldmatnum.
Ég horfði þó einn á opnunarleikinn milli Angóla og Malí. Hann fór fram í skugga hörmulegrar árásar skæruliða á landslið Tógó daginn áður, sem kostaði nokkur mannslíf. Samúð umheimsins var með Tógó, en ekki mótshaldara og Afríska knattspyrnusambandsins sem sá enga ástæðu til þess að liðið drægi sig úr keppni – auk þess sem Tógómenn gætu bara sjálfum sér um kennt að hafa komið bílandi um viðviðsjárverð héruð.
Malí var mitt lið á mótinu. Ástæðan var einföld: Fréderic Kanouté. Ég hafði lengi dáðst að honum sem leikmanni, auk þess sem Sevilla er mitt lið á Spáni (frá Maradona og Dassajev-árunum). Kanouté var potturinn og pannan í liði Malí, þótt reyndar væru þar innanbúðar alvörumenn eins og Seydou Keita og Mahamadou Diarra. Ég þóttist spámannslega vaxinn og veðjaði á þá meistaraefni hins klóka innherja.
Sá spádómur virtist ætla að hrynja til grunna strax í fyrsta byrjun. Angólska liðið mætti ákveðið til leiks og virtist mun líklegra. Undir lok fyrri hálfleiks skoraði einhver leikmaður sem ég hafði aldrei heyrt um áður tvö mörk með nokkurra mínútna millibili. Hann var á mála hjá Al-Shabab í Sádi Arabíu. Það var ekkert frávik, angólska liðið samanstóð af óþekktum smámennum.
Kanouté varð pirraður og liðsfélagar hans örvæntingarfullir. Í seinni hálfleik blésu þeir til sóknar, til þess eins að fá tvö mörk í andlitið, það seinna á 75. mínútu. (Mennirnir sem skoruðu þau mörk hétu ekki mjög mörgum nöfnum að meðaltali.) Stemningin á pöllunum var ólýsanleg. 4:0 sigur í fyrsta leik var betra en bjartsýnustu heimamenn gátu látið sig dreyma um.
Á 79. mínútu kröfsuðu gestirnir í bakkann. Keita skoraði eftir fíflaleg mistök markvarðarins. Helsti ljóðurinn á ráði Afríkumótsins er hversu algengt era ð sjá farsakennda markvörslu og afleitan varnarleik. Það síðarnefnda skýrist væntanlega af því að liðin hafa ekki ráð á að koma nægilega oft saman og leika of fáa leiki. Hvers vegna Afríka á ekki fleiri góða markverði skil ég hins vegar ekki.
Klukkan sýndi 88 mínútur þegar Kanouté þrumaði knettinum upp í markhornið., 4:2. Heimamenn urðu spældir að missa niður flottu markatöluna sína, en hugguðu sig við að innbyrðisviðureignir teldu á undan markatölu í mótinu. Útilokað væri að Malí tækist að skora tvö mörk í viðbót á tveimur mínútum og uppbótartíma.
Fjórum mínútum bætt við. Fyrsta mínútan líður, svo önnur. Malí sækir og Angólamenn eru orðnir taugaveiklaðir. Aulagangur í vörninni og Keita skorar aftur! Enn er mínúta til stefnu…
Angólska liðið tekur eins langan tíma og unnt er í að hefja leik á ný. En taugarnar eru löngu búnar að gefa sig. Þeir missa boltann samstundis. Malí sendir allt liðið fram á við… og Yatabaré, enn einn leikmaðurinn sem fæddur er í Frakklandi en leikur fyrir land forfeðranna, jafnar metin. Dauðaþögn meðal 45 þúsund áhorfendanna í nokkrar sekúndur þar til þeir ranka við sér og fara að baula á labbakútana, sína menn. Ógleymanlegur leikur.
(Mörk Angóla: Amado Flavio 2, Felisberto Sebastião de Graca Amaral Gilberto Vaðlaheiðarvegavinnuverkamannaverkfærageymsluskúr, Manucho. Mörk Malí: Seydou Keita 2, Frederic Kanouté, Mustapha Yarabare.)