Fótboltasaga mín 99/100: Aðalfundurinn

15. september 1990. Fram 3 : Valur 2

Þegar afi heitinn, Haraldur Steinþórsson, varð sextugur árið 1985 komst hann á 95 ára regluna. Þá þegar hætti hann störfum hjá BSRB, eftir að hafa unnið að verkalýðsmálum í aldarfjórðung. Í kjölfarið var hann hann fenginn til starfa hjá ríkinu, þar sem hann hafði það hlutverk að liggja yfir gömlum kjarasamningum og reikna út eftirlaunaréttindi opinberra starfsmanna. Hann gantaðist með að hann væri dýrasti starfsmaður ríkisins, þar sem endurreikningar hans hækkuðu lífeyri fjölda fólks svo miklu munaði.

Lífeyrisútreikningarnir voru 9 til 5 vinna, öfugt við starfið hjá BSRB þar sem hann lá í símanum öll kvöld og helgar og utanlandsferðir voru eina leiðin til að flýja vinnuna, enda hvorki farsímar né tölvupóstur.

Árið 1985 þótti sú hugmynd að karlmaður í fullu fjöri drægi úr vinnu svo skrítin að afi lenti í blaðaviðtali, þar sem hann sagðist ætla að sinna barnabörnunum og fylgjast betur með fótboltanum. Við það stóð hann og næstu árin mætti hann ekki bara á flesta leiki í meistaraflokki, heldur rak inn nefið í getraunakaffinu, fór á karlakvöld, tók að sér ýmis smáverkefni fyrir klúbbinn og fylgdist jafnvel með yngri flokka leikjunum.

En félagsstörfin héldu áfram að toga. Afi varð fljótlega prímusmótor í Félagi hjartasjúklinga, sem réðst í að stofna HL-stöðina: þjálfunar- og endurhæfingarstöð fyrir hjarta- og lungnasjúklinga. Þau störf gátu af sér önnur félagsstörf, þar á meðal innan Öryrkjabandalagsins. Og það var líklega Örykjabandalagið sem hafði af honum úrslitaleikinn á Íslandsmótinu 1990.

Gamla manninum var ekki skemmt þegar hann áttaði sig á árekstrinum, en líklega hafði hann tekið að sér fundarstjórn eða eitthvað álíka trúnaðarstarf á fundinum og gat ekki losað sig. Bömmer.

Ég mætti því með strætó á Laugardalsvöll ásamt Baldri félaga mínum. Við vorum vel vígbúnir, með stóran Framfána sem okkur hafði áskotnast. Spennan var líka mikil þar sem fjögur lið gátu orðið meistarar. Framarar stóðu best og dugði sigur. Mistækist Fram að vinna yrðu KR-ingar meistarar með sigri á heillum horfnum Íslandsmeisturum KA. Langsóttari atburðarás þurfti til að Valur eða ÍBV ynnu.

Tölfræðin var Framliðinu líka hagstæð. Á þessum árum voru leikir Fram og Vals stærstu viðureignirnar í boltanum, en Valur hafði ekki unnið Fram í deildarleik frá 1986. (Tölum ekkert um ákveðinn bikarleik á Hlíðarenda. Þetta var líka ljót hurð.)

Það var skarð fyrir skildi að Kristinn R. Jónsson meiddist fyrir leikinn. Það virtist þó ekki koma að sök, því Framararnir voru mun sterkari og með boltann mestallan tímann. Það sannaði þó ekki alltaf mikið þegar þetta Framlið átt í hlut. Liðið hans Geira spilaði boltanum í stað kýlinga og gat haldið honum lon og don, en stundum án þess að skapa mikið.

Við óðum sem sagt í hálffærum – sendingum sem næstum tókust inn á Jón Erling Ragnarsson sem skoraði að vild þetta sumar en var ekki í stuði að þessu sinni. Valsmennirnir fengu tvö færi í fyrri hálfleik og í raun bara eitt því þrumuskot Sævars Jónssonar upp í markhornið eftir tuttugu mínútur kom ekki upp úr neinu. Skömmu fyrir leikhlé bætti Anthony Karl Gregory við marki, 2:0.

Stemningin í stúkunni var súr. Það var ekkert grín að þurfa að vinna upp gegn Valsvörninni: Sævari Jónssyni, Þorgrími Þráinssyni, Magna Blöndal… og Bjarna Sigurðssyni í markinu. Og þó, KR hafði skorað þrisvar gegn Val tveimur umferðum fyrr.

Talandi um KR – í Frostaskjólinu var KR komið yfir gegn KA og var Íslandsmeistari ef staðan héldist óbreytt. Eyjamenn voru sömuleiðis á flugi gegn Stjörnunni, svo Valsmenn máttu heita vonlausir um meistaratitil sama hvað gerðist í Laugardalnum.

Eftir leikinn vildu einhverjir KR-ingar telja sér trú um að Valsmenn hafi lagst yfir töfluröðina í hléi og ákveðið að gefa leikinn. Fátt var fjær sanni. Í fyrsta lagi voru Framarar erkióvinir Valsara og í öðru lagi breyttist nákvæmlega ekkert þegar seinni hálfleikur hófst. Framarar héldu áfram að stjórna spilinu. Valsmenn pökkuðu í vörn og Bjarni Sig. greip allt sem þurfti að grípa.

Ég leit sífellt oftar á vallarklukkuna á hinu sérkennilega Morgunblaðsmerkta altari við norðurenda vallarins. Tíminn til að skora þrjú mörk varð stöðugt minni og ekki voru KA-menn að fara að hjálpa okkur neitt.

Þegar hálftími var eftir náði Jón Erling góðri sendingu inn í Valsvítateiginn og Ríkharður Daðason skallaði í netið, 2:1. Um leið og fyrsta markið kom, var ég viss um að við myndum vinna. Það sást bara einhvern veginn á leiknum. Framararnir geisluðu af öryggi og þá sjaldan Valsmennirnir náðu boltanum tókst þeim aldrei að hanga neitt á honum. Fyrir vikið varð vörn þeirra sífellt þreyttari.

Ríkharður kom við sögu í marki númer tvö, sem hann lagði upp fyrir Steinar Guðgeirsson, reyndar með viðkomu á Pétri Arnþórssyni. Þrettán mínútur eftir og við Baldur vinur löngu farnir úr stúkunni og í stæðin við norðvestanverðan völlinn. Þar héngum við á veggnum, albúnir að stökkva inn á völlinn. Sjónarhornið var óneitanlega dálítið skrítið. Við horfðum beint aftan á markið – en það þykja svo sem skemmtilegustu stæðin í Bretlandi.

Í stöðunni 2:2 og þrettán mínútur eftir, hefðu vafalítið mörg lið freistast til að hleypa leiknum upp og senda alla fram. En ekki liðið hans Geira. Það hélt algjörlega sínu leikskipulagi, enda skynsamlegt. Valsmennirnir voru örþreyttir og virtust ekki líklegir til að halda út.

Fyrirfram hefði maður kannski veðjað á að Gummi Steins myndi setja sigurmarkið í svona leik. Hann var markahæstur Framara þetta sumarið, þrátt fyrir að hafa byrjað þennan leik á bekknum í fyrsta skiptið á Íslandsmótinu. En það var varnarmaðurinn Viðar Þorkelsson sem varð hetjan með skoti utan úr teig þegar sex mínútur voru eftir.

Tryllingslegur fögnuður fylgdi í kjölfarið og enn meiri þegar flautað var til leiksloka. Við krakkarnir og táningarnir hoppuðum öll inn á völlinn og mynduðum hóp umhverfis leikmennina og hlupum með þeim sigurhringinn eftir verðlaunaafhendingu. Hvaða fábjáni ákvað að brýnasta framfaramál fótboltans væri að banna áhorfendum að fara inn á völlinn í leikslok? Trölli hætti kannski við að stela jólunum, en hann hefur ekki enn skilað verðlaunaafhendingunum.

Eftir að allt var um garð gengið stóðum við félagarnir hálfumkomulausir eftir í Laugardalnum. Hvað gerir maður fimmtán ára og bíllaus þegar liðið manns hefur unnið Íslandsmeistaratitil? Ekki fer maður á barinn og ekki heim í tölvuna. Við komum okkur því vestur á bóginn og skemmtum okkur við að banka upp á hjá KR-ingum sem við þekktum. Kannski ekki mín glæstasta stund eftir á að hyggja.

Að lokum skilaði ég mér á Neshagann til afa og ömmu. Hann var kominn heim af ÖBÍ-þinginu (eða hvort þetta var bara aðalfundur Hjartasjúklingafélagsins eftir allt saman) og horfði á upptökuna af leiknum með fína vídeótækinu sem einhver verkalýðssamtökin höfðu gefið honum á sextugsafmælinu fimm árum áður. Þetta var fínt tæki og meira að segja með fjarstýringu. Vel að merkja ekki þráðlausri fjarstýringu, en fjarstýringu þó sem gerði það að verkum að maður gat staðið heila þrjá metra frá tækinu og spólað fram og til baka, fram og til baka… og séð Viðar skora aftur og aftur.

(Mörk Fram: Ríkharður Daðason, Steinar Guðgeirsson, Viðar Þorkelsson. Mörk Vals: Sævar Jónsson, Anthony Karl Gregory)