Helgi framkvæmdaleysisins var fullkomnuð þegar við Steinunn vöppuðum út í söluturninn Ríkið og leigðum Subway, frönsku stórmyndina með Christophe Lambert. Það er ein af þessum myndum sem hefðu ekki getað orðið til nema á níunda áratugnum. Á henni eru bæði hápunktar og mjög djúpar lægðir.
Er hægt að vera töffaralegri en Lambert – eða „Fred“ eins og persóna hans nefnist í myndinni, þegar hann þvælist um rangala neðanjarðarlestarkerfis Parísar í smókíng með flúrljós í hönd, sem minnir helst á geislasverð?
Á sama hátt er erfitt að hugsa sér pínlegri senur en þegar hljómsveitin hans Freds treður upp í fyrsta sinn, íklædd landkönnuðarbúningum (einhver eitís-hljómsveit gerði þetta líka, var það 101 haircut eða ABC?). Tónleikagestir töldu sig vera að mæta á hlýða á klassíska tónlistarmenn flytja Brahms, en eftir tvær mínútur af rokki og róli eru pönkararnir úr metróinu og gamlar kerlingar farin að dansa í takt og klappa höndum. – Vont!
Óskaplega getur það samt truflað mann í svona vídeóglápi þegar þýðandinn gerir ljót mistök. Klúðurslegar þýðingar má fyrirgefa, jafnvel líka efnislegar villur. Asnaleg stafsetning er þó illfyrirgefanleg. Hvernig dettur nokkrum manni í hug að skrifa: „riksuga“? – og þetta var ekki eina skiptið þar sem y-i var sleppt á augljósum stöðum.
* * *
Sá minn fyrsta Fram-leik í handboltanum í vetur. Góður sigur á Gróttu/KR. Þetta þýðir að Framararnir eru nánast öruggir í A-hluta úrslitakeppninnar og af þessum þremur leikjum sem eftir eru skipta úrslitin í tveimur þeirra, gegn Aftureldingu og Þór engu máli – enda þurrkast þau úrslit út þegar áfram verður komið. Fínt að setja unglingaliðið inn í næstu leikjum…