Hóhóhó… ég átti hreinlega bágt með mig þegar ég renndi í gegnum DV í gær. Á lesendabréfasíðunni var mynd af Geir Jón Þórissyni. Ég skal hundur heita ef þetta bréf er ekki tilbúningur einhvers blaðamannsins:
Atvinnumaður í kurteisi
Ingibjörg Bjarnadóttir skrifar
Ég nánast kikna í hnjúaliðunum þegar yfirlögregluþjónn okkar Reykvíkinga, Geir Jón Þórisson, birtist í sjónvarpinu. Bæði er maðurinn bráðmyndarlegur – stór og stæðilegur – og hefur einnig ótrúlegan sjarma og útgeislun. Og augun sem sögð eru spegill sálarinnar vitna um að þarna fari góður maður.
Alltof margir í röðum opinberra starfmanna skynja ekki að þeir starfa í þjónustu fólksins. Bera ekki virðingu fyrir þegnum landsins, fremur en skítnum undir skónum sínum. Þeir hinir sömu ættu að taka sér Geir Jón til fyrirmyndar, sem er eins og diplómat og atvinnumaður í kurteisi.
Og í þessu sambandi gerist sú spurning áleit hvort Ólafur Ragnar ætli að halda áfram sem forseti Íslands, þegar kjörtímabili hans lýkur á næsta ári. Geir Jón væri tilvalið forsetaefni.
* * *
– Geir Jón á Bessastaði! Er það ekki bara málið?