Það er yfirlýst stefna þessarar bloggsíðu að hér er ekki fjallað um pólitík nema í undantekningartilfellum. Get samt ekki orða bundist eftir fréttatíma Stöðvar 2 og Kastljósið í gær.
Einhverra hluta vegna hafa þingmenn Samfylkingarinnar ákveðið að Davíð sé hinn versti maður fyrir að hafa pönkast á Búnaðarbankastjórunum. (Sjálfum dettur mér í hug 100 betri ástæður fyrir því að skamma Davíð Oddsson.)
Líklegasta skýringin á þessum viðbrögðum er sú að forsætisráðherra gat ekki stillt sig um að sparka í Jón Ólafsson í tengslum við þennan hamagang. Það er segin saga að þegar ráðist er á Jón, þá snúast kratarnir til varnar…
Það skemmtilegasta í þessu öllu saman er þó að heyra samflokksmenn Jóhönnu Sigurðardóttu ræða um að menn eigi ekki að reyna að koma höggi á bankastofnanir með því að ræða launakjör stjórnenda þeirra og hvetja fólk til að flytja viðskipti sín. – Komm on! Jóhanna Sigurðardóttir er nánast með doktorsgráðu í að hneykslast á launum bankastjóra. Hún gæti flutt ræðuna um græðgina og samanburð við laun skúringarkvenna í svefni!
Hvað ætli maður þyrfti að leita lengi í umræðunum og greinaskrifunum í tengslum við laxveiðiferðir Landsbankastjóranna til þess að finna tilvitnun í þingmenn stjórnarandstöðunnar hvetja fólk til að hætta viðskiptum við bankann? Eða er það meira mál þegar forsætisráðherrann hefur orð um slíkt vegna þess að það tekur enginn mark á stjórnarandstöðunni? – Stór mínus í kladdann hjá krötunum! (Af hverju pönkast menn ekki frekar á Finni Ingólfssyni sem gerði þó helvítis samninginn!)
* * *
Á laugardaginn leit ég inn á Glaumbar að horfa á fótbolta. Þar komst ég að því að við hlið mér sátu stuðningsmenn: Crystal Palace, WBA og Ipswich. Mikið er gott að losna öðru hverju við skrílinn sem heldur með stóirliðunum. Við sammæltumst um að það væri miklu betra að eiga sér lítil lið að halda með. Miklu skemmtilegra að fylgjast með framvindu mála á textavarpinu en í beinni útsendingu…
* * *
Bjúgu og uppstúfur í matinn í gær. Tókst betur en síðast, enda gerði Steinunn uppstúfinn að þessu sinni. – Hvort tala lesendur þessarar síðu um uppstúf sem karlkyns eða hvorugkynsorð. „Það uppstúfið“ hefur mér alltaf þótt hláleg málvenja.
Eftir stendur að ég gæti ekki gert uppstúf til að bjarga lífi mínu (enda kannski ólíklegt að til þeirrar aðstöðu muni beinlínis koma). Skyldi ekki einhver skólasálfræðingurinn eða fjölgreindarfræðingurinn hafa skilgreint fyrirbærið „sértækir matreiðsluörðugleikar“ – þá hefði ég í það minnsta afsökun…