Aldrei fór það svo að börnin í spurningakeppninni byrjuðu ekki að bera á mann mútur. Reyndar eiga Vestlendingar margt ólært í mútufræðunum, því þau komu ekki færandi hendi með gjafir til mín, Loga og Steinunnar Völu fyrr en EFTIR keppnina. Þá var náttúrlega full seint í rassinn gripið að ætla að lauma til þeirra spurningunum.
En gjafirnar voru sallafínar. Um er að ræða Henson-treyjur sem búið er að merkja með nöfnum okkar og merki eftirlætisliðanna í enska boltanum. Ég fékk Luton, Logi Man. Utd. og Steinunn Vala Liverpool. Þetta var svo góður klæðnaður að ég er strax mættur í þessu í vinnuna.
Vestlendingarnir voru annars eiturhressir og höfðu styrkt sig mjög frá því í útvarpinu. Æfingar skila árangri. Verslingar voru öflugir. Mættu þó hrópa minna í hraðaspurningum. Borgarholt og MK mætast svo í lokaviðureign fjórðungsúrslita.
Óttar þeirra Kolbeins og Svövu fékk að semja eina hraðaspurningu og er víst í skýjunum núna. Hann er mjög efnilegt Gettu betur-nörd. Ætli það gildi ekki það sama um GB-þjálfun og fimleikana í Rúmeníu – að ná krökkunum áður en þau verða sex ára…
* * *
Les á blogginu hennar Sonju hún sé á förum. Það eru ill tíðindi, enda erfitt að hugsa sér betri nágranna. Og aldrei héldum við svo partýið stóra!
* * *
Guðjón Þórðarson rekinn frá Barnsley – og þeir sem eru að fara að spila við Luton á laugardaginn. Ekki gott. Það er ansi algengt að lið vinni fyrsta leik undir nýjum stjóra.
* * *
Já og méðan ég man…
Á keppninni í gær var ég með vísbendingaspurningu um Votta Jehóva. Daginn fyrir keppnina kom ég að tölvunni minni hér í vinnunni og sá að Varðturninn lá á lyklaborðinu. Vottarnir höfðu droppað við og ákveðið að skilja eftir 1-2 blöð. – Þeir skyldu þó ekki vera í betra sambandi en við hin eftir allt saman…