HM palladómar
Jæja, ekki hefur þessi bloggsíða verið jafn yfirfull af HM-vangaveltum og lofað var í upphafi. Ætli það sé þó ekki best að feeta í fótspor Óla Njáls og rekja sig í gegnum 16 liða úrslitin leik fyrir leik.
laugardagur 15. júní:
Þýskaland – Paraguay. – Humm, ekki hef ég góða tilfinningu fyrir þessum leik. Ætli helvítis Þjóðverjarnir muni ekki vinna þetta? Chilavert er orðinn þungur og seinn og líklega eru Paraguayar mettir eftir að hafa skriðið inn í útsláttarkeppnina. – En óskaplega væri það þó gaman ef Þjóðverjaófétin féllu úr keppni. (Lið sem er með Jancker í hópnum á einfaldlega ekki skilið að fara langt á HM.)
Danmörk – England. – Sálarstríð! Nú er ég hatursmaður Dana frá fornu fari og óska þeim alls hins versta á stórmótum. Jafnframt er mér meinilla við Englendingar og dvölin í Skotlandi varð til þess að styrkja þá afstöðu mína til mikilla muna. – Það jákvæðasta við leikinn er að önnur þjóðin muni falla úr keppni. Hvort vil ég fremur að það verði Danir eða Englendingar? Tja, ég læt það liggja á milli hluta.
Líklega munu þó Tjallarnir hafa þetta að endingu. – Sjálfur hef ég meiri hug á að horfa á Fram keppa við ungmennalið Keflavíkur í 32 liða úrslitum bikarkeppninnar en þennan leik.
sunnudagur 16. júní:
Svíþjóð – Senegal. – Á ljósi þess að pabbi heldur upp á fimmtugsafmælið sitt á laugardag, þar sem ég ætla að drekka eins og skúnkur og verða þunnur eins og múkki – er þá raunhæft að ég muni vakna í þennan leik? Tja, til hvers? Svíar munu vinna Senegalbúa án mikillar fyrirhafnar. Ég hef aldrei verið Svíavinur og var t.d. alltaf meinilla við Thomas Brolin. En þetta Svíalið er bara skrambi gott. Geta Svíar farið alla leið? Hver veit – nógu mikið af stóru þjóðunum eru svo sem fallnar úr keppni!
Spánn – írland. – Mikið hlýtur Roy Keane að líða illa núna. Sennilega er honum eins innanbrjósts og Michael Laudrup var árið 1992 þegar hann neitaði að spila með Dönum á þeirri forsendu að þjálfarinn væri fífl. – Ekki þar fyrir að írska liðið væri neitt mikið öflugra með Keane. Veiku hlekkirnir væru eftir sem áður jafn fáránlega veikir og hvort sem hann er með eða ekki, þá veltur velgengni íra á því einu hvort þeim tekst að hlaupa og andskotast nógu lengi. Ég bara trúi ekki öðru en að Spánn vinni þetta. Ef ekki í venjulegum leiktíma, þá í framlengingu.
mánudagur 17. júní:
Mexíkó – Bandaríkin. – Mexíkó er með gott lið. Bandaríkin ekki. – Auðvitað hefði hér verið skemmtilegra að fylgjast með Portúgölum í þessum leik, en sennilega var það bara gleðilegt að Suður Kóreumennirnir felldu þá úr keppni. Það á að refsa liðum fyrir svona aumingjaskap!
Brasilía – Belgía. – írmann hefur spáð Belgum í undanúrslit (þó væntanlega hafi honum ekki verið ljóst að til þess þyrftu þeir að vinna Brasilíu). Er ég galinn að taka undir þann spádóm? Eða kannski bara nihilisti?
Skrúðganga og samkoma í Hljómskálagarðinum. – Blöðrur og kandíflos.
þriðjudagur 18. júní:
Japan – Tyrkland. – Tyrkir eru með betra lið, en einhvern veginn er það ekki þeirra stíll að ná að leggja gestgjafa að velli. Japan vinnur og kemst í fjórðungsúrslit, þó ekki væri nema til að núa salti í sár Frakka, Argentínumanna og Portúgala.
Suður Kórea – ítalía. – Á réttlátum heimi væru ítalir dæmdir úr keppni fyrir að vera skúnkar og Uruguay boðið að taka sæti þeirra í þessum leik. Það væri reyndar alveg eftir öðru ef ítalir hrykkju nú í gang og færu langt. – Ég ætla hins vegar að veðja á sigur heimamanna.
* * *
Og hvað myndi þetta svo þýða varðandi fjórðungsúrslitin?
Þýskaland eða Paraguay – Mexíkó. – Eigum við ekki bara að leyfa óskhyggjunni að taka völdin og setja Mexíkó í undanúrslitin? Það á alltaf að spá með hjartanu!
Spánn – Suður Kórea. – Grátur og gnístran tanna í Seoul þegar Spánverjar vinna létt.
Danmörk eða England – Belgía. – Ég trúi því ekki að ég sé að spá Belgum sigri hérna… – ég bara trúi því ekki! Hvílíkur heimsósómi!
Svíþjóð – Japan. – Svíar vinna hér.
Jamm.