Einu sinni, þegar ég var enn í ritstjórn Múrsins, skrifaði ég grein um fræga Líbani sem ég var býsna ánægður með. Las hana yfir aftur og held að hún standi bara vel fyrir sínu.
Af hverju fór ég að grafa þessa grein upp? Á því er langsótt skýring.
Bylgjan er með Giorgio Moroder-þema núna í hádeginu. Þar var meðal annars spilað snilldarlagið „Electric Dreams“, sem Phil Oakey söng. Heltekinn af nostalgíunni gúgglaði ég Electric Dreams til að sjá hvaða upplýsingar mætti finna um myndina. Komst meðal annars að því að handritið byggir á smásögu eftir Kurt Vonnegut. Það vissi ég ekki áður.
Nema hvað – í þessu netrápi datt ég inn á síðu með texta lagsins. Þar var hægt að lesa fleiri texta með Human League. Þar á meðal „The Lebanon“:
Before he leaves the camp he stops
He scans the world outside
And where there used to be some shops
Is where the snipers sometimes hide
He left his home the week before
He thought he’d be like the police
But now he finds he is at war
„Weren’t we supposed to keep the peace“
And who will have won
When the soldiers have gone
From the Lebanon
The Lebanon
The Lebanon
From the Lebanon
Jæks!
Allt þetta Líbanon-jarm minnti mig á greinina um frægu Líbanina. (Kata er örugglega enn ekki búin að fyrirgefa mér fyrir að skrifa langhund um Líbani en sleppa Keanu Reeves.)
Vandinn er að núna er ég kominn með tvö lög á heilann. „Electric Dreams“ OG „I Think We´re Alone Now!“ – Ég verð að hætta að hlusta á gamalt smástelpupopp…
* * *
Steinunn er á Sankti Jó að fá steraskammt nr. tvö. Hún fær svo þann þriðja og síðasta á morgun og kemur væntanlega heim upp úr hádegi. Held að stefnan verði samt tekin á Neshagann frekar en Mánagötuna, því þótt iðnaðarmennirnir ætli sér að klára í dag þá verður örugglega allt skítugt og ég hef engan tíma til að standa í skúringum í dag.
* * *
Þeir sem vilja hitta besta og frægasta bloggarann og losna við nokkra þúsundkalla í leiðinni ættu að halda í Fram-heimilið milli 17 og 19 í dag. Þar verður skírteinum í Framherja útbýtt og gamlar treyjur seldar.
Einnig er hægt að éta, drekka og vera glaðr ásamt besta bloggaranum næsta miðvikudag. Mæli með því.
* * *
Hvor byrjaði – Egill eða Vef-Þjóðviljinn?
Á dag bloggaði Egill um að Vef-Þjóðviljinn væri fastur í tittlingaskít um það hver hefði gert eða sagt hvað fyrir óratíma og fór heldur háðulegum orðum um vefritið.
Frétt dagsins á Vef-Þjóðviljanum er myndskreytt með úrklippu úr kosningablaði R-listans frá 1994 þar sem Egill er titlaður ritstjóri.
Hvort er Egill að hefna sín á Vef-Þjóðviljanum fyrir myndina – eða Vef-Þjóðviljinn að sparka í Egil vegna pillunnar? Spyr sá sem ekki veit.