Hahaha… Spádómar mínir rættust!
Þegar starfsmenn húsnæðislánadeildarinnar í KB-banka fengu í hendurnar greiðslumatspappírana frá okkur Steinunni hnutu þeir nákvæmlega um þau atriði sem ég hafði spáð fyrir.
i) Tveir launaseðlar frá mér, þar sem beðið var um þrjá. Þar skiptir náttúrlega ekki máli þótt:
* launagreiðslur frá áramótum séu kyrfilega merktar inn á báða seðlana og því hafi ég skilað inn ítarlegri gögnum en um var beðið
* fram komi á launaseðlunum að ég sé á föstu kaupi í tilteknum launaflokk með fasta yfirvinnu x marga tíma á mánuði
* KB-banki sé viðskiptabankinn minn og að þar sé launareikningurinn minn og því hægðarleikur að kanna inngreiðslur
– Eftir stendur að KB-banki verður að fá ljósrit af því hversu mikið ég hafi fengið útborgað 1. maí. Annars geti þeir ekki treyst því að ég sé í fastri vinnu.
ii) Greiðsluseðill frá Tryggingastofnun með örorkubótum Steinunnar, með sömu upplýsingum um greiðslur frá áramótum er að sjálfsögðu heldur ekki nóg. Auðvitað þarf KB-banki að hafa vaðið fyrir neðan sig!
Sú staðreynd að Steinunn hefur á fyrstu sex mánuðum ársins fengið sem nemur sexföldum mánaðarlegum örorkubótum er auðvitað ekki sönnun þess að hún hafi verið öryrki í maí og júní eða að muni halda áfram að vera það í ágúst og svo fram eftir! Að mati KB-banka er vitaskuld sú hætta fyrir hendi að hún hafi verið 500% öryrki í janúar og svo hafi smá örorka í viðbót dottið inn fyrir síðustu mánaðarmót en svo verði allt saman búið!!!
Hvers vegna er ég pirraður yfir þessu?
Ég er EKKI pirraður vegna þess að það muni drepa mig að finna þessa seðla í draslinu heima og taka af þeim ljósrit og skutla í bankaútibú. Ég er alls ekkert of góður til þess að leita í pappírsstaflanum.
Ég er hins vegar pirraður vegna þess að ég SKIL þörfina á því að vera með starfsfólk í bankakerfinu sem reynir að fyrirbyggja að fólk taki lán sem það ræður ekki við að greiða. Að halda úti slíku kerfi hefur að sjálfsögðu í för með sér KOSTNAí sem við, viðskiptavinir bankakerfisins þurfum að greiða. Sá kostnaður er fyllilega réttlætanlegur ef hann verður til þess að afstýra því að fólk ani út í vitleysu og fari á hausinn, sér og sínum til vandræða.
Besta leiðin til að eftirlitskerfi geti gegnt þessu hlutverki, er með heilbrigðri skynsemi. Hún birtist til dæmis í því að kerfið láti sér ekki nægja að SAFNA SAMAN gögnum, heldur SKILJI gögnin. Með því að frysta greiðslumatið til okkar þangað til búið er að skila inn Tryggingastofnunarseðlum fyrir maí og júní, sýnir eftirlitskerfið í KB-banka fram á að það er mjög duglegt við að SAFNA gögnum, en SKILUR þau því miður ekki.
Og það er þannig eftirlitskerfi sem mér þykir helvíti hart að þurfa að borga fyrir með þjónustu- og lántökugjöldunum mínum.
* * *
Minni á sjoppu-samkeppnina, sem fengið hefur hið glæsilega og alþjóðlega heiti: CHOPIN – 2004. (Er þessi brandari kannski aðeins og súr?)