Úff, eftir tvö samtöl við blaðamenn DV í gær – létti mér mjög við að sjá blaðið í morgun. Óttaðist að vera kominn á forsíðuna, en smáklausa á öftustu síðu varð niðurstaðan. Reyndar tókst mér að sannfæra fyrri blaðamanninn um að þetta væri ekki frétt, en Eiríkur Jónsson sleppir ekki fréttamola ef hann telur sig hafa fundið hann.
Kveikjan að málinu var bloggfærsla fyrr í vikunni um draugaganginn á safninu. Hann felst í því að ólánsútvarp sem hér er í húsinu á það til að kveikja á sér að tilefnislausu. Vitaskuld getur þetta verið óþægileg tilfinning fyrir menn sem eru einir í húsinu – að yfirgefa herbergi og loka jafnvel á eftir sér, en snúa svo aftur þar sem Útvarp Saga tekur á móti þeim á fullu blasti. – Ætli röddin í Ingva Hrafni sé þó ekki óþægilegri en grunurinn um óboðnar mannaferðir?
ístæða þess að mér finnst „útvarpsdraugurinn“ vera svona sniðugt fyrirbæri er sú að hér á safninu er varðveittur „eldavélardraugur“. Það er eldavél sem átti það á sínum tíma til að tala, muldra og söngla. Vitaskuld urðu menn logandi hræddir við þessar kenjar eldavélarinnar og töldu að reimt væri í gripnum. Síðar kom í ljós að um var að ræða endurvarp frá útvarpsmöstrunum á Vatnsenda – sem sagt, enginn draugur heldur einföld eðlisfræðileg skýring.
Öll þessi ár hef ég sagt þessa sögu við gesti og gangandi. Svo skemmtum við okkur yfir því hvað menn hafi nú verið vitlausir í gamla daga að hrökkva við þótt eldavél færi að tala og skýra það með draugagangi…
Það má því segja að komið hafi vel á vondan.
* * *
Jafntefli í Víkinni voru ekki bestu úrslitin, en við héldum hreinu. Það er mikilvægt. Vörnin er miklu sterkari en verið hefur. Víkingar eru snillingar og öðlingar eins og alltaf hefur legið fyrir. Stuðningsmenn þeirra koma saman fyrir leiki, fá sér bjór og spjalla. Þeir buðu Frömurum í heimsókn, sem þegið var með þökkum. Þetta gerir ekkert annað lið mér vitanlega.
* * *
Uruguay tapaði gegn Argentínu og lenti í þriðja sæti í sínum riðli á Copa America. Komast samt í fjórðungsúrslit. Ekki er ég alveg nógu bjartsýnn á þetta.
* * *
Vegna gríðarlegrar þátttöku í CHOPIN 04 hefur verið ákveðið að stytta atkvæðagreiðsluna. Seinni partinn í dag verða úrslit tilkynnt og næstu viðureignir kynntar. Staðan núna er:
Baula 19 : Litla kaffistofan 8
Þyrill 16 : Fjallakaffi 15
Vikivaki 18 : Hversdagshöllin 1
Skaraskúr 12 : Borgarsalan 8