íi, ái, ái… Hryggurinn á mér er í skralli. Fótboltinn í KR-heimilinu er mun hraðari og fastar spilaður en sá á Nesinu. Fyrir vikið kom ég lurkum laminn heim úr boltanum í gærkvöld og vaknaði með skrokkinn helauman. Hefði betur fengið mér 2-3 viský fyrir svefninn en kunni ekki við að ryðjast inn í stofu þar sem Magnea var sofandi.
Ég er svo aumur í bakinu að það er engu lagi líkt. Argh!
* * *
Afsalið fyrir Mánagötunni er komið í þinglýsingu. Skyldi Sýsla takast að hanka mig á forsmatriðum? Það myndi ekki koma á óvart.
Tollstjóraembættið er um þessar mundir að meta hvort við fáum endurgreiddan vaskinn af framkvæmdunum við baðið (tíhí – fá vaskinn endurgreiddan… þetta er hnyttið)!
Ef það gengur í gegn – getum við Steinunn hætt að slafra í okkur matnum við stofuborðið og keypt borðstofuborð. Það er orðið ansi leiðinlegt að sitja eins og Japani við kvöldmatinn.
* * *
Fjármálaráðherra flytur um það ræður hvernig skattarnir skuli lækkaðir. Það var víst kosningaloforð sem ekki má svíkja – ella munu verkfræðimenntaðir fituhjassar úr þingmannastétt neita að yfirgefa þinghúsið.
Á sama tíma ætlar sami fjármálaráðherra að svíkja gerða samninga um kjör öryrkja. Þeir voru ekki bara kosningaloforð, heldur formlegt samkomulag.
Mun malbikskóngurinn úr Kópavoginum hóta því að gerast hústökumaður í þingsölum ef þetta loforð verður svikið? Tæpast.