Sjöunda og næstsíðasta útvarpskvöldið er að baki. Eftir annað kvöld getur maður farið að hugsa um sjónvarpið fyrir alvöru. Vonandi hlustuðu sem flestir, því þetta var frábær skemmtun.
Menntaskólinn við Sund 20 : Iðnskólinn í Reykjavík 13. MS fór léttar í gegnum þessa viðureign en ég hafði búist við. Iðnskólamenn áttu ekki eins góðan dag og í fyrstu umferð. Greinilegt var að þjálfurum og liðsstjórum MS var létt eftir að hafa hrist af sér drauga síðasta árs.
Bíðum aðeins með miðkeppnina og snúum okkur fyrst að: Framhaldsskólanum á Laugum 17 : Flensborgarskólanum 14. Hafnfirðingar hljóta að vera afar svekktir og kannski lent í að vanmeta andstæðingana. Flensborgarliðið var lakara núna en í síðustu viku, en Laugaliðið að sama skapi mun sterkara. Það er gleðilegt að fá Laugar í sjónvarpið, í fyrsta sinn síðan 1994. Ætli Laugalimir vilji ekki Norðurlandsslag gegn MA?
Og þá að stórleiknum – Menntaskólinn í Reykjavík 26 : Borgarholtsskóli 29. Einfaldlega frábær keppni tveggja fantagóðra liða. Stigatalan talar sínu máli. MR-ingar, sem enn hafa náð flestum stigum í útvarpskeppninni – 30 stykkjum – eru úr leik með 26 stig. Það hefði dugað til sigurs í öllum viðureignum gærdagsins.
Stuðningslið beggja skóla troðfylltu húsið og stemningin var afbragðsgóð. MR-ingar og Borghyltingar eru miklir vinir og það var athyglisvert að sjá að liðsmenn Borgarholts vorkenndu andstæðingunum svo mikið eftir keppnina að þeir fengu sig varla í að fagna sigri. Drengskapur þessi kemur svo sem ekki á óvart þegar MR og Borgó eiga í hlut, eins og sást í fyrra. Eitt af því sem ég er ánægðastur með varðandi þróun þessarar keppni á síðustu 2-3 árum er einmitt hversu mikil og góð vinátta er milli flestra þeirra liða sem taka GB af mestri festu.
Talandi um prúðmennsku og drengilega framkomu, þá verð ég hins vegar að kvarta yfir uppákomu sem hópur Verslinga stóð fyrir á undan keppninni. Þá komu nokkrir úr klappliði þeirra, ásamt manni úr þjálfarahópnum, ruddust í gegnum áhorfendahópinn – og fyrirliðinn gekk að keppendum sem búnir voru að koma sér fyrir á sviðinu og otaði verðlaunagripnum, Hljóðnemanum, framan í hvern og einn þeirra.
Hafi þetta uppátæki átt að vera fyndið – þá mistókst það illilega. Hafi ætlunin verið að reyna að slá annað liðið eða bæði út af laginu mínútu fyrir keppni – þá ber þetta vott um skringilegt innræti og slæma dómgreind.
Ég neita að trúa því að þetta framtak hafi verið gert með vitund eða vilja keppnisliðs Verslinga. Ég þykist vita að þar á bæ hafi menn þann þroska að HAGA sér eins og meistarar, ekki kjánar. Væntanlega munu Verslingar biðjast afsökunar á þessu atviki þegar í fyrramálið.
Tvær áhugaverðar viðureignir á morgun:
* Hraðbraut : Menntaskólinn á Egilsstöðum
* Fjölbrautaskólinn í Breiðholti : Menntaskólinn í Kópavogi