Það mætti nú einhver benda Sjálfstæðismönnum á að fyrirbærið öfuga sálfræði.
Heyrði í Sigurð Kára Kristjánsson og Björgvin G. Sigurðsson í spjallþætti ræða um pólitík, vítt og breitt. Meðal annars var rætt um formannskjör í Samfylkingunni.
Greinilegt er að Sjálfstæðismenn hafa komist að þeirri niðurstöðu að það henti þeim betur að Össur sitji áfram sem formaður. Hvort það sé rétt stöðumat er ég reyndar efins um – en látum það liggja á milli hluta.
Með þetta að leiðarljósi mætti Sigurður Kári í þáttinn og lofsöng Össur, sem hann hamraði á að „fiskaði vel“ fyrir flokkinn og að Ingibjörg væri vond kona að ala á ágreiningi og deilum. Af máli hans mátti helst skilja að þingmaðurinn væri andvaka á nóttunni af áhyggjum yfir stöðu Samfylkingarinnar og velferð hennar sem stjórnmálaflokks.
Hversu góðar ætli svona framboðsræður séu fyrir formannsframboð Össurar Skarphéðinssonar? Hvaða Samfylkingarmaður telur það meðmæli með formanninum sínum að þingmenn Sjálfstæðisflokksins vilji endilega halda honum í embætti?
Hvað með að sýna smáklókindi? Ef íhaldið vill í raun og veru halda Össuri í formannsstólnum, þá eiga Sjálfstæðismenn að bölva honum í sand og ösku, gagnrýna hann fyrir að vera alltaf að skamma ríkisstjórnina o.s.frv. Er þetta kannski of háþróað plott fyrir fótgönguliðana í þingflokknum?