Fyrsta sjónvarpskeppni ársins afstaðin og Menntaskólinn við Sund kominn í undanúrslit. Laugalimir mega vel við una, þótt úrslitin hafi verið nokkuð ljós að hraðaspurningum loknum. Hljóðið var miklu betra en í flestum þáttunum í Smáralindinni í fyrra, sem gladdi mig ósegjanlega. Það er óþolandi aðstaða að þurfa að sperra eyrun í sífellu og útdeila stigum á þeim grunni.
Eftir keppni komu undrandi MK-ingar og Borghyltingar til mín og virtust ekkert kannast við að hafa heyrt af nýja spurningaliðnum – villuleitinni. Það kemur mér ákaflega mikið á óvart því ákvörðunin um hann var tekin í haust og sjálfur fékk ég til yfirlestrar drög að bréfi um keppnistilhögun þar sem gert var ráð fyrir þessu. Ég ætla rétt að vona að ekki hafi farist fyrir að kynna þessar breytingar.
Annars var þessi nýi liður settur inn til að koma til móts við hefðbundnar athugasemdir keppnisliða – þau gráta yfirleitt sáran ef 3-stiga vísbendingaspurningar reynast of léttar. Vesta skammaryrði Gettu betur-keppandans er „bjöllubardagi“ – þar sem sá fær stigin sem fyrr ýtir á bjölluna. Til að mæta þessu var skipt út einni vísbendingaspurningu.
Villuleit í texta er gamalgróinn liður í GB, en versti gallinn við þessar spurningar var einatt sá að liðin börðust um svarréttinn og endalaust komu upp deilur um það hvort hringt hefði verið áður en myndin hvarf af skjánum. Með því að sleppa bjöllunni og leyfa liðunum að svara báðum – skriflega – er komist fram hjá þessu vandamáli.
Er þetta framför eða afturför? Tja, ég vil ekki dæma um það strax. Þar sem kynna þurfti spurningaliðinn til sögunnar tók hún lengri tíma en ella – og líklega ætti ég að reyna að stytta textann lítilsháttar. Hins vegar er vandséð að hægt sé að fela þrjár staðreyndavillur í mikið minna en 200 orða texta, án þess að hann verði hrein staðreyndasúpa.
– Alveg er ég viss um að nú mun athugasemdakerfið fyllast af GB-nördum sem hafa á þessum málum miklar skoðanir – og Palli mun skrifa a.m.k. einu sinni að honum finnist þetta leiðinlegt. Jamm.