Leikur ársins í ensku 1. deildinni (sem er í raun 3. deild) var í dag. Topplið Luton tók á móti Hull. Fyrri viðureigninni lauk með 3:0 sigri Hull, sem er ríki klúbburinn í deildinni. Luton var í vandræðum með meiðsli og leikbönn. Aðdáendurnir eru í mánuð búnir að öskra eftir liðstyrk fyrir lokasprettinn, en Mike Newell fær enga peninga frá stjórninni – enda engir peningar til. Allir hefðu sætt sig við jafntefli og að hanga á toppsætinu aðeins lengur.
Við lékum hins vegar mun betur og áttum flest færin mestallan leikinn. Á 89. mínútu skoraði svo króatíski snillingurinn Brkovic sigurmarkið og allt gekk af göflunum. Á spjallsíðu Luton-stuðningsmanna rekur einn aðdáandinn raunir sínar. Hann varð svo kátur þegar markið kom að hann stökk á fætur og dansaði stríðsdans – þar til hann mundi eftir fótbrotinu…
Mike Newell er snillingur. Um það þarf enginn að efast lengur. Það er með ólíkindum hversu miklu hann hefur náð út úr mannskap sem flestir spáðu að yrði um miðja deild. Frá því að hann kom til liðsins fyrir einu og hálfu ári hefur hann ekki fengið að kaupa einn einasta leikmann og misst nokkra samningslausa frá sér. Á sama tíma hefur unglingaliðið komist í hóp þeirra sterkari í sinni deild – en það eru ekki nema nokkur misseri síðan félagið var við það að afleggja varaliðið. Giska á að Newll verði komin við stjórnvölinn hjá úrvalsdeildarliði eftir 2-3 ár. Vonandi fáum við samt að njóta krafta hans sem lengst.
Luton er nú með fjögurra stiga forystu á Hull, fimm stiga forskot á Tranmere og ellefu stig á Sheffield Wednesday og Hartlepool. Hartlepool á raunar tvo leiki til góða og er að leika best allra hinna liðanna um þessar mundir. Á þriðjudaginn höldum við einmitt suður til Hartlepool, en þar höfðu heimamenn ekki tapað allt keppnistímabilið þar til í dag.
Ég er svo kátur að það er engu líkt!!!