Kristján Möller var í útvarpinu áðan að þrátta við Einar Odd Kristjánsson.
Kristján var í þeim gírnum að velta sér upp úr ímynduðum eða raunverulegum innanflokksátökum í öðrum flokkum – í þessu tilviki hjá Framsókn og íhaldinu. Svona blaður – þar sem menn þrugla um einhverjar fylkingar og flokkadrætti í stjórnmálahreyfingum sem þeir þekkja lítið sem ekkert finnst mér afskaplega leiðinlegt efni. Þetta er rakið fyrir kjaftaskúma í pólitískum spjallþáttum, stjórnmálafræðinga og drykkfellda blaðamenn til að sýna hvað þeir séu klárir og sniðugir. Alvöru stjórnmálamenn eiga ekki að láta draga sig út í svona bull.
Auðvitað geta flestir pólitíkusar lent í þessum hjólförum, en mér finnst þetta sérstaklega áberandi hjá sumum af yngri þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og velflestum karlþingmönnum Samfylkingarinnar. Hvað í ósköpunum veit Sigurður Kári Kristjánsson um það hvernig fylkingar skiptast hjá krötum – og hver hefur mest fylgi í einhverjum innanflokskosningum þar? Hvað veit Kristján Möller um það hver eða hverjir bjóði sig fram – eða bjóði sig ekki fram gegn Siv Friðleifsdóttur? Líklega álíka mikið og ég veit um hvern íhaldið gerir næst að formanni og þá hvenær.
Það dapurlegasta er að sumir stjórnmálamenn virðast aldrei vera í essinu sínu nema þegar kemur að svona fánýtum bollaleggingum. Einar Oddur stóð sig hins vegar vel í þættinum, gerði bara grín að Möllernum og hló þegar Kristján kallaði sjálfan sig jafnaðarmann. „Þú ert enginn jafnaðarmaður Kristján – þú ert íhald. Það vita allir!“
Einar Oddur er ekki sá vitlausasti…