Um 2.000 eintök af Dagfara, tímariti Samtaka herstöðvaandstæðinga, fara í póst í fyrramálið. Þar sem svíðingarnir á póstinum auka okur sitt með hverju árinu sem líður – þá reynum við að hlaupa sjálf með slatta af þessu, amk. í húsin í miðbænum.
Fullt af áhugaverðu efni í blaðinu sem ég held að hafi bara tekist ágætlega, þótt meðgangan hafi verið lengri en til stóð. Tvö ár eru liðin frá síðasta stóra Dagfara, sem er auðvitað alltof langur tími.
Helgin fór öll í snatt af þessu tagi. Fyrir vikið hefur mér ekki einu sinni gefist tími til að skrifa montrassa-blogg til að hlakka yfir 5:0 sigri Luton á Bristol City á laugardaginn. Öðruvísi mér áður brá.
# # # # # # # # # # # # #
Á morgun er planið að taka frí í vinnunni til að ganga frá lausum endum í tengslum við GB, hlaupa með nokkur blöð og kenna um sögu líffræðinnar í vísindasögunámskeiðinu. Nú er fyrri hluta námskeiðsins – heimsmyndarfræðum og stjörnufræði – lokið. Við tekur saga þróunarkenningarinnar og almenn vísindaheimspeki, poststrúktúralismi og feminismi. Ójá.