Þegar Sonja bjó í kjallaranum hjá okkur á Mánagötunni var hún lengst af ekki með sjónvarp. Að hluta til vegna þess að í Norðurmýrinni næst ekki sjónvarpsmerki nema með góðu þakloftneti (nema Ómega, hún næst án þess að stinga tækinu í samband) og að hluta til vegna þess að hún hafði margt betra við tíma sinn að gera.
Ég veit ekki hvort Hildur sem býr í kjallaranum núna er með sjónvarp, en miðað við að ekkert hefur breyst í tengingunni á loftnetinu niður í kjallarann á ég síður von á því.
Er það þá réttur skilningur hjá mér – að samkvæmt nýju útvarpslögunum eigi sjónvarpslausi íbúinn í kjallaranum að fara að borga ígildi afnotagjalds gegnum nefskatt og gömlu hjónin, Benedikt og Sigríður á efri hæðinni, að borga tvöfalt? Á sama tíma mun ég, sem forstöðumaður Minjasafns Orkuveitunnar hætta að borga afnotagjald af sjónvarps- og útvarpstækjunum sem hér eru og eru einkum hugsuð starfsmönnum til afþreyingar. Jafnframt mun Orkuveitan spara sér afnotagjöldin vegna gamla stöðvarstjórahússins hinu megin við götuna. Þar er nefnilega sjónvarpstæki sem þátttakendur á fundum eða gestir í móttökum OR geta notað til að horfa á fréttir eða fótbolta.
Fyrirtæki og stofnanir munu sem sagt borga minna og almenningur þá augljóslega meira, nema að heildarupphæðin til RÚV lækki sem því nemur. Og nákvæmlega hvernig á þetta að gagnast „fjölskyldum í landinu“ eins og ráðherra lét hafa eftir sér?