Söngkeppni framhaldsskólanna

Sá byrjunina á söngkeppni framhaldsskólanna og svo verðlaunaafhendinguna á laugardagskvöldið. Sá þar á meðal lögin í­ 2. og 3. sæti og sigurvegarann taka lagið í­ lokin. Miðað við muninn á þessum keppendum skildi ég ekki hvers vegna einhverjir áhorfendur fóru að baula þegar úrslitin voru tilkynnt. MR-stelpan virtist bera af.

Bloggarinn Gunnar Freyr er áhugamaður um keppnina og segir frá því­ á sí­ðunni sinni að hann sé búinn að safna saman upplýsingum um sigurvegara o.fl. og bætt inn á Wikipediu.

Þetta er mjög gott framtak, enda eru upplýsingar af þessu tagi ótrúlega fljótar að glutrast niður. Á þessum lista má t.d. sjá að allar upplýsingar virðist vanta um keppendur í­ 2. og 3. sæti flestöll árin. Á ég að trúa því­ að það séu ekki einhverjir lesendur þessarar sí­ðu sem lumi á viðbótarupplýsingum og geti fyllt upp í­ eyðurnar?

Sjálfur fæ ég reglulega spurningar um hitt og þetta sem tengist sögu Gettu betur. Nýverið fékk ég t.d. fyrirspurn um árangur Menntaskólans á Akureyri frá upphafi. Verið er að skrifa sögu skólans og þar væri vitaskuld æskilegt að geta birt lista yfir keppnislið frá upphafi ásamt upplýsingum um allar keppnir. Þetta liggur hvergi á lausu.

Morfís-stjórnendur höfðu sömuleiðis samband við mig nýverið og voru að fiska eftir upplýsingum um sögu keppninnar – en komu að tómum kofanum. Einhver góður maður mætti stofna Morfís-sí­ðu á Wikipediu, þar sem hægt væri að safna saman grunnupplýsingum.

Þetta er kannski næsta verkefni fyrir Gunnar Frey?