Besti dagur mánaðarins…
…er að sjálfsögðu sá átjándi, því að þá byrjar nýtt kreditkortatímabil. Næstu þrjá dagana er stefnan tekin á að naga gömul fiskbein og láta skyldmenni gefa sér að éta. Með nýju kortatímabili fer landið hins vegar að rísa á ný og um mánaðarmót ætti ég að geta staðið í skilum með flesta gíróseðla, þ.á.m. fokkíng bílatryggingarnar sem ætla mig lifandi að drepa.
Miðað við núverandi fjárhagsáætlun ætti peningastaðan því að komast í lag um átjánda september, með þarnæsta kortatímabili… nema hvað, að um þær mundir þarf ég að skipta út bíldruslunni og kaupa nýja. Þá verður grátur og gnístran tanna!
Að öllu óbreyttu virðist því helst í stöðunni að fá sér einhverja skítaaukavinnu sem gefi e-ð í aðra hönd. Andskotinn hafi það, ég get ekki farið enn einu sinni í að þjálfa Morfís-lið? Hef ég enga sjálfsvirðingu? Væri ekki skárra að hætta að borða, drekka bjór og kynda íbúðina???
* * *
Luton tapaði aftur í gær – öðrum leiknum í röð. Markatalan eftir tvær umferðir er 4:8, sem er magnað!
* * *
Breytingarnar sem við Óli og Sverrir erum búnir að garfast í hér á safninu eru killer! Helvítis strigaspjöldin sem keypt voru 1990 eru loksins að víkja úr salnum og við tekur framtíð ný og góð…
Jamm.