Krísa
Æi, í gær rak ég mig á það hvað ég er búinn að vera skelfilega lélegur í að vinna að fræðigreininni minni – sagnfræðinni. Það er eins og allur tíminn fari í daglegt amstur, vinnuna, blogg, bjórdrykkju og pólitískt vafstur. Öll göfugu fyrirheitin um að taka sig á og fara að vinna að öllum grúsk-verkefnunum mínum virðast sitja á hakanum. Dæmi:
i) Á gær rambaði ég inn á heimasíðu norsks tímarits um gas og gasvinnslu. Þar las ég sagnfræðipistil sem vék lítillega að þýska fyrirtækinu Carl Francke sem einmitt reisti Gasstöð Reykjavíkur. Það minnti mig á að ég hef sáralítið gert í að koma B.A.-ritgerð minni um sögu Gasstöðvarinnar í útgáfuhæft form. Samt skrifaði ég undir útgáfusamning við Háskólaútgáfuna þegar á árinu 1998.
ii) Fékk tölvupóst frá Steve Sturdy, sem er sérfræðingur við Edinborgarháskóla í sögu læknisfræðinnar. Hann var að segja mér frá nýútgefinni bók eftir Samuel Cohn og grein eftir hann í American Historical Review. Cohn er endurskoðunarsinni í plágufræðum og er með mjög djarfar kenningar. Þegar ég var úti í Skotlandi var Cohn hins vegar í rannsóknarleyfgi frá Glasgow-háskóla þannig að ég náði ekki að ræða við hann. Sturdy sagði Cohn frá M.S.-ritgerðinni minni og komst að því að honum hafði ekki komið til hugar að plágudeilan kæmi svo mjög inn á svið þekkingarfélagsfræðinnar. Hann var búinn að prófa kenningar sínar á læknum, sem tóku þeim vel, en átti eftir að reyna þær á meindýrafræðingum – sem munu rífa hann á hol.
Sjálfur er ég hins vegar ekki búinn að gera rassgat í því að breyta ritgerðinni minni í grein. Samt gæti ég hæglega búið til úr henni tvær stórar greinar og jafnvel eina litla til viðbótar.
iii) Á skeytinu frá Sturdy spurði hann mig hvort ég væri að stefna á doktorsnám. Gaf sterklega í skyn að ég væri aufúsugestur í Edinborg. Hef ég eitthvað spáð í þessum málum? Neibbs!
iv) Lenti í móttöku hjá Orkuveitunni í gær þar sem verið var að afhenda Borgarskjalasafni gögn úr sögu Rafmagnsveitu, Hitaveitu og Vatnsveitu. Þar voru elstu klisjurnar varðandi upphaf Vatnsveitunnar dregnar fram og rötuðu þær líka í sjónvarpsfréttir um kvöldið. Af hverju er ég ekki fyrir löngu búinn að skrifa greinina sem afgreiðir þær í eitt skipti fyrir öll?
v) Mundi skyndilega í gær að ég á enn eftir að ræða við gamlan starfsmann OR vegna heimildaöflunar fyrir grein sem ég var búinn að lofa sjálfum mér að skrifa.
vi) Fann í gær gamalt skeyti frá Skúla Sigurðssyni sem ég er ekki búinn að svara enn. Það minnti mig á að við Skúli ætlum að halda saman fyrirlestur í febrúar. Er ég farinn að undirbúa hann? Neibbs!
vii) Þurfti að breyta skráningu minni hjá SHOT, sem gefur út tímaritið Technology and Culture. Hvað er langt síðan mér tókst síðast að finna tíma til að lesa það rit? Margar vikur eða mánuðir!
* * *
Vei, Steinunn ætti að hringja á hverri stundu. Þá get ég farið og sótt hana á Sankti Jó. Næstu 2-3 daga verður hún upptjúnuð og ofvirk, skiptir um umræðuefni á mínútufresti og gerir tilraunir til að skúra íbúðina – þrátt fyrir skýr fyrirmæli um að liggja uppi í rúmi fram að helgi. – Þetta verður áhugavert…
Jamm