Jæja, nú er ljóst að það verður tekið á því í vinnunni þessa vikuna. Fyrir dyrum er uppsetning á írafossvirkjunartengdri sýningu sem helst þyrfti að vera tilbúin um miðja næstu viku. Það verða allmörg handtök hjá okkur Sverri vegna þessa.
Það einfaldar nokkuð skipulagninguna að fyrirhugaðri skreppferð á Suðurlandið hefur verið skotið á frest. Steinunn fékk hringingu áðan frá Sankti Jó. Henni bauðst að leggjast þar inn á morgun og vera í þrjá daga, sem er fínt þar sem smásteraskammtur ætti að hressa hana við. – Ferðalagið bíður þá bara betri tíma.
* * *
Er hálft í hvoru að spá í að skella mér í bíó í kvöld. Á hvaða mynd ætti maður að fara? (Endilega komið með uppástungur hér fyrir neðan.)
* * *
Bráðum verður látið sverfa til stáls í viðskiptum mínum við tiltekna aðila. Mikið óskaplega er ömurlegt að þurfa að standa í leiðindum og stappi gagnvart öðru fólki. Af hverju geta ekki bara allir verið vinir, staðið við orð sín og látið af krónískri lygaáráttu?