Muniði eftir fyrstu menningarnóttinni? Hún var talsvert frábrugðin þeim sem síðar hafa verið haldnar, einkum vegna þess að hún fór í raun og veru fram að næturlagi. Uppákomurnar voru um miðnæturbil en ekki milli kl. 16 og 17 um daginn. Afturför? Tja, hef ekki skoðun á málinu.
En nú er sem sagt Menningarsíðdegi gengið í garð. Orkuveitan er með labbitúr skipulagðan um Elliðaárdal. Lagt upp frá Minjasafninu (þess vegna er ég við tölvu kl. 9:30 á laugardagsmorgni…) Að þessu loknu geri ég ráð fyrir að líta á róttæklingatjald Stebba frænda & co. við Tjörnina. Skemmtilegt framtak hjá strákunum.
Upp úr kl. 14 verður litið við á Hlemmi, sem að sögn verður breytt í listamiðstöð. Trúi því þegar ég sé það. Því næst verður haldið á Laugardalsvöll að sjá Framara berjast fyrir lífi sínu í deildinni. Allt annað en sigur gegn íBV þýðir að fall er óumflýjanlegt.
Sjónvarpsgláp í kvöld. Steinunn á að hvíla sig þessa helgi og það að spanast niður í bæ innan um mýgrút af fólki er ekki sterkur leikur í stöðunni.
* * *
Luton er með útileik gegn Stockport. Nú fyrst reynir á liðið.
Á Skotlandi mætast Hearts og Hibs. Einn stærsti leikur ársins í Edinborg!