Alveg var keppni gærkvöldsins mögnuð. MH var alveg við það að vinna MR, en klikkaði á smáatriði í síðustu spurningu og því fór sem fór.
Það sem áhorfendur heima í stofu sáu ekki, var heljarmikið uppistand á tökustað þar sem upptaka var stoppuð til að athuga hvort ekki væri 100% rétt farið með. Sú spurning varðaði hljóðfærið sýlafón. Eins og bent var á í athugasemdakerfinu hér að neðan, átti lýsingin á hljóðfærinu einnig við marimbu. Það vissum við hins vegar allan tímann, enda lá alltaf fyrir að líka hefði verið gefið rétt fyrir það svar.
Á keppninni miðri gaf sig hins vegar fram maður sem kynnti sig sem sérfræðing og uppástóð að sýlafónn væri úr málmi en ekki tré. Mig grunaði nú hálfpartinn að þarna væri verið að slá saman sýlafón og víbrafón, en þar sem búið var að sá fræjum efasemda ákváðum við samt að leggjast í símann. Símtöl til Orðabókar Háskólans skiluðu engum árangri og tilraunir til að ná í ýmsa þjóðkunna slagverksleikara ekki heldur.
Að lokum fékkst þó símanúmer í gegnum Sinfóníuhljómsveit Íslands á slagverksleikara sem staðfesti að spurningin hefði verið rétt. – Það var óneitanlega léttir. Merkilegt hvað maður getur stressast upp þegar svona athugasemdir koma fram, jafnvel eftir að hafa verið sérstaklega búinn að tékka á spurningunni fyrir þáttinn.
Eins og allir vita sem horfðu á keppnina, voru bæði liðin frábær. MH-ingar fá stóran plús fyrir búningana og bæði liðin fyrir að hafa húmorinn í lagi. Stuðningsmenn MH fá sömuleiðis plús fyrir að skilja helv. prjónaorminn sinn eftir heima, enda sá djókur farinn að vera býsan þreyttur. MR-stuðningsmennirnir fá hins vegar stóran mínus fyrir að gaula endalaust lag dauðans, Gádeamus ígitúr. íður en lengra er haldið skulum við fara yfir kosti og galla þessa lags:
Gallar:
* Þetta er ekki hressilegt lag, heldur bölvað helvítis gaul.
* Textinn er þunglyndislegur og ekkert menntaskólatengur.
* Það finnst engum töff að sjá menntskælinga syngja á latínu texta sem þeir skilja ekki sjálfir.
* Þetta lag hefur alltaf drepið niður alla stemningu, heiðarlegt siguróp væri miklu betra.
Kostir:
* Einu kostirnir eru skástu gallarnir.
En keppninni lauk sem sagt á þennan veg. Annað liðið þurfti að sigra og að þessu sinni var það MR. MH-ingar báru sig vel, þrátt fyrir mikil vonbrigði. Þegar þau voru að svara lokaspurningunni, horfði ég út í salinn og sá Önnu Pálu, annan þjálfara þeirra, stirðna upp þegar liðið gekk beint í gildruna með þjóðerni Russells Crowe. Crowe er fæddur á Nýja Sjálandi og bjó þar á unglingsárum, þar sem hann steig sín fyrstu skref á leiksviði og í rokktónlistinni. Á ístralíu hefur hann alla tíð verið uppnefndur „Kiwi“ eins og aðrir Nýsjálendingar.
Eins og gerist og gengur um fræga menn, hafa ýmsir reynt að taka þjóðerni Crowes til endurskoðunar eftir að sló í gegn. Skondnustu dæmin um það eru tilraunir Maoría á Nýja Sjálandi til að skilgreina Crowe sem frægan Maoría – ástæðan? Jú, langa-langafi hans (eða langa-langamma, man ekki hvort) var Maoríi.
Á sama hátt grófu Norðmenn upp að einhver forfaðir Russells Crowe hefði komið frá Noregi. Hefur hann síðan stundum verið kallaður „Nýsjálendingur af norskum ættum“ í blöðum þar í landi. Snorri Sturluson og Leifur heppni hvað?