Úff, það er ekki gott að elda mánudagskjötbúðinginn rallhálfur. Sú varð samt raunin í gær.
Hitti Borgarholtsliðið ásamt þjálfurum á Dillon klukkan fimm. Keppendurnir voru nú reyndar einkum í kaffinu, en þjálfararnir skáluðu í bjór. Skiptumst á raupsögum, sem var gaman enda Borghyltingar hinir ljúfustu drengir.
Maður hefði kannski haldið að þeir væru komnir með upp í kok af spurningakeppnum núna, en það er öðru nær. Undirbúningurinn fyrir næsta ár er strax kominn í gang og vangavelturnar um það hvernig hin liðin verða skipuð komnar á fulla ferð.
Ég hafði ekki áttað mig almennilega á því hversu mikið er orðið um æfingakeppnir milli skóla. MS, Versló, MH, Borgarholt og MK – svo dæmi séu tekin – hafa öll keppt margar æfingakeppnir áður en farið var út sjálfa aðalkeppnina. Sumar þessara keppna eru þrælvelundirbúnar með myndefni og hljóðdæmum.
Þegar ég tengdist MR-liðinu í gamla daga, þá gerðum við aldrei neitt svona. Einu æfingakeppnirnar voru innanskóla-pressukeppnir þar sem kennarar eða gamlir liðsmenn öttu kappi við spurningaliðin og svo kepptu MR-ingar stundum við Laugvetninga, enda Stefán Már bekkjarbróðir minn úr grunnskóla sérstakur vinur MR-liðsins.
Borghyltingarnir sögðu að MR væri tregt til að keppa í svona vináttukeppnum. Það gæti kannski verið hluti af skýringunni á því hversu mikið hin liðin hafa náð að draga á MR-inga og nú síðast tekið fram úr þeim.
Ef ég væri í útvarpsrekstri, t.d. á Útvarp Sögu, þá myndi ég nota mér þetta efni. Alveg er ég viss um að þjálfarar stóru liðanna í keppninni væru fáanlegir að hausti til að setja upp æfingamót, t.d. með fjórum liðum og útvarpa því. (Þetta myndu þeir meira að segja gera ókeypis.) Úr því að fólk situr límt við útvarpstækin og hlustar á spurningakeppni fjölmiðlanna yfir páskahelgina er ég viss um að pressukeppni nokkurra GB-liða yrði vinsælt efni.
Hugmyndinni er hér með ýtt úr vör. Einhver góður maður má framkvæma.