Ég var langflottastur í biðröðinni fyrir utan Skífuna áðan.
Vaknaði fyrir allar aldir. Ók að versluninni á Laugaveginum og sá að þar var enginn. Hugsaði að hér væri eitthvað skrítið á seyði og brunaði upp í vinnu til að grafast fyrir um hvar miðarnir væru seldir. Jújú, Skífunni og byrjar kl. 9. Ég brunaði aftur til baka.
Tvær stelpur voru búnar að stofna biðröð. Geta tveir annars talist biðröð? Einn er í það minnsta ekki röð. Þær voru illa búnar og börmuðu sér snemma yfir kulda. Hvorug var eins séð og ég að taka með sér eldhúskoll. Sat eins og fínn matur á kollinum á meðan nágrannarnir í röðinni stóðu upp á endann eða settust í tyggjóklessurnar á gangstéttinni.
Enginn hinna hafði heldur vit á því að taka með sér lesefni, ef undan er skilinn strákurinn sem var að lesa fyrir próf. Þegar ég var búinn með Fréttablaðið leyfði ég nágrönnunum að gægjast í það. Það féll í kramið, enda leiðinlegt að bíða í biðröð. Las sjálfur bók eftir Charles MacLean um St. Kildu. Þar komu fram merkilegar upplýsingar um gamlar arfsagnir eyjaskeggja.
Helga Vala gekk upp Laugaveginn um áttaleytið. Sé á forsíðu DV að svíðingarnir á RÚV neita að ráða hana sem fréttamann af pólitískum ástæðum. Þetta eru asnar, Guðjón!
Sé raunar framan á sama blaði að Hreinn Loftsson er með þingmanninn í maganum. Hahaha… Nýtt afl er örugglega að leita að frambjóðendum fyrir næstu kosningar.
Nema hvað – Skífan opnaði á slaginu níu. Besti bloggarinn er stoltur handhafi miða á Pixies. Þetta er yndislegur heimur!
* * *
Óvissuferð deildarinnar minnar innan Orkuveitunnar hefur verið frestað vegna flensufaraldurs og skítaveðurs. Þeir sem vilja teyma okkur Steinunni á barinn mega viðra slíkar hugmyndir á kommentakerfinu hér að neðan. Allar tillögur skoðaðar með opnum huga. Þó er vert að hafa í huga að 1. maí er í fyrramálið og þá er nú gott að fara snemma á fætur.
Munið: morgunkaffi herstöðvaandstæðinga, 11-13, Vesturgötu 7. – Kröfuganga á eftir.