Morgunblaðið blés um helgina upp þá frétt að Ólafur Ragnar hafi í raun ekki ætlað sér forsetaembættið – heldur hafi markmiðið verið að tapa með reisn og nota kosningarnar til að byggja upp bakland fyrir áframhaldandi pólitískt valdabrölt.
Þessi frétt er hins vegar ekki ný af nálinni. Hún birtist áður í prófkjörsblaði Einars Karls Haraldssonar, þar sem fram kom að hann væri „kristinn velferðarkrati“. Þá vakti hún hins vegar litla athygli og rétt rataði inn á vefútgáfu MBL ef ég man rétt.
ístæða þess að ekki var gert meira úr frásögn Einars Karls á sínum tíma, var einmitt sú að hann var augljóslega að reyna að vekja athygli á sér í prófkjörsslagnum. Barátta frambjóðenda var hörð. Sitjandi þingmennirnir gátu látið til sín taka innan þings, hinir þurftu að varpa fram sprengjum af einhverju tagi til að komast í fréttir. Réttilega túlkuðu menn frásögn Einars Karls á þá leið, enda virtist tilgangur hennar vera sá að sýna fram á hversu mikill pólitískur klækjarefur Einar Karl væri.
Nú – einu og hálfu ári síðar, er þessi sama frásögn hins vegar dregin fram og trúað eins og nýju neti. Tímarit Moggans birtir hana svo sem helstu uppljóstrun sína í átta blaðsíðna úttekt á forsetaferli ÓRG. Það er þunnur þrettándi.
* * *
Sá Fram og Stjörnuna spila í gær. Bibercic, sá gamli refur, var í liði Stjörnunnar. Hann er feitur sem aldrei fyrr.