Það hefur ekki farið alveg jafn mikið fyrir Ólympíuleikaglápi og ætlað var. Þátttaka Íslendinga stefnir í að vera algjört antiklímax. Helst von til þess að fimleikastrákurinn standi sig um helgina.
Tvær greinar sem mér finnst gaman af að fylgjast með á Ólympíuleikum, eru hokký og sundknattleikur. Sundknattleikur er einhver erfiðasta grein sem ég get hugsað mér. Að troða marvaðann í þrisvar tuttugu mínútur og reyna á sama tíma að henda bolta á milli er nógu erfitt þótt ekki komi til andstæðingar sem klípa mann í typpið undir yfirborðinu. Hélt reyndar að bara væri keppt í sundknattleik karla, en á hinni alvondu opinberu heimasíðu ÓL sést að það er líka kvennakeppni.
Er það bara ég sem er svona vitlaus eða er vonlaust að finna upplýsingar á þessari síðu?
Hokkýið er áhugaverð grein vegna þess að þar fengu Pakistanar og Indverjar áður fyrr sín einu verðlaun á leikunum. Merkilegt hvað þessar stóru þjóðir eru slappar í íþróttum. – Evrópsku heimsvaldasinnarnir eru hins vegar búnir að eyðileggja meira að segja hokkýið fyrir Asíubúum eftir að teknir voru upp gervigrasvellir á ÓL. Núna eru Þjóðverjar og Hollendingar bestir. Svekkjandi að sjá Þjóðverjana taka Pakistan í gær.
* * *
Tegndapabbi, Helga og Magnea gista á Mánagötunni. Þau fara í sólarlandareisu í fyrramálið og ég sé fram á að skutla þeim út á flugvöll fyrir allar aldir.
Notuðum tækifærið og héldum áfram að vasast í pappírsvafstri vegna íbúðakaupanna, þetta er endalaust helvíti…
Borgaði stimpil- og þinglýsingargjöld vegna lántökunnar í morgun. Fæ væntanlega pappírana úr þinglýsingu á miðvikudag og íbúðalánasjóður ætti að afgreiða greiðsluna til írna um fyrrihluta næstu viku. Þá má segja að málið sé frágengið og tilefni til að lyfta sér upp. – Svo þegar tengdapabbi snýr aftur úr fríinu klárum við að ganga frá afsalinu. Loksins, loksins!
* * *
Tapið á Fylkisvelli var vonbrigði. Dómgæslan var afleit, þar sem dómari leiksins fékk slíkan móral yfir að hafa víti af Fylkismönnum að hann sleppti amk tveimur vítaspyrnum sem FRAM átti að fá. Bömmer.