Úff, í hvert skipti sem ég læt plata mig til að taka á móti tveimur skólahópum í röð sé ég á eftir því. Maður er gjörsamlega uppgefinn eftir svona holskeflur.
Börnin voru svo sem ágæt, en ég er samt farinn að komast á þá skoðun að mér finnist skemmtilegra að taka á móti 14-15 ára nemendum en 10-11 ára. Öðruvísi mér áður brá!
# # # # # # # # # # # # #
Ég botna ekki alveg í uppslætti Fréttablaðsins á forsíðunni í dag. Á skoðanakönnuninni var nefnilega ekki spurt „hvern viltu sjá sem formann Samfylkingarinnar?“ heldur „hver telurðu að verði formaður Samfylkingarinnar?“
Þessar spurningar eru augljóslega ekki jafngildar – hvað þá að hægt sé að draga af þeim ályktanir um vinsældir frambjóðenda eins og Gunnar Helgi Kristinsson gerir í blaðinu.
Ef ég væri t.d. spurður hver ég teldi að yrði næsti varaformaður Framsóknar, þá myndi ég ekki nefna þann sem ég hefði mest álit á – heldur þann sem Framsóknarmenn munu væntanlega velja sér.
Hitt er svo annað mál að Ingibjörg Sólrún vinnur þetta formannskjör. Það eina sem gæti stoppað það væri ef Jóhanna Sigurðardóttir beitti sér gegn henni. Ójá.