Engin veisla

Á föstudaginn verð ég þrí­tugur. Það var lengi að brjótast um í­ mér að halda veislu – og var meira að segja búin að bræða með mér hugmynd að útfærslu. Nú er ég hins vegar búinn að ákveða að sleppa þessu. Nenni ómögulega að standa í­ öllu stússinu sem þessu fylgir, auk þess sem Steinunn fer að komast á steypinn og hugurinn er ansi mikið bundinn við breytingarnar sem í­ vændum eru.

Þeir sem búnir voru að kaupa Kjarvals-málverk og tí­u binda ritsöfn stórskálda til að gefa mér í­ afmælisgjöf verða því­ að finna önnur not fyrir þessa hluti. Ekkert partý – engar gjafir, þannig eru jú reglurnar!

# # # # # # # # # # # # # #

Við feðgarnir komum ýmsu í­ verk á Mánagötunni þessa helgina.

Eftir að hafa málað þvottahúsið um sí­ðustu helgi og rutt til í­ gesta/bókaherberginu, var röðin komin að ýmsum smáviðvikum – að festa upp fatahengi, setja krækju á svalahurðina, flytja þurrkara úr Kópavoginum og útbúa festingu fyrir mótmælaspjaldið hennar Steinunnar á ganginum. (Það gerist varla mikið svalara en að hafa mótmælaspjald hangandi upp á vegg, tilbúið til notkunar!)

Auk þessa var fjárfest í­ barnavagni og rissuð upp teikning af eldhúsinu. Hugmyndin er að hafa upp á iðnaðarmanni til að setja upp nýja innréttingu, þar sem nálega öllu yrði skipt út. Vaskurinn yrði þannig settur undir gluggann, ný eldavél fengin, enda er bökunarofninn að syngja sitt sí­ðasta, raflagnir yrðu teknar í­ gegn og tenglum fjölgað til mikilla muna. Þá yrði veggurinn fram á gang fjarlægður að mestu.

Megintilgangurinn með þessum framkvæmdum væri að fá pláss í­ eldhúsinu til að matast. Það er hvimleitt að þurfa að bera allan mat inn í­ stofu, hvort sem það er serjósið á morgnanna eða stærri máltí­ðir á kvöldin.

Við alla þessa áætlanagerð áttaði ég mig svo á því­ að ég veit ekkert um eldhúshönnun – hvað beri að varast og hvað sé rétt að hafa í­ huga. Hvað setur maður t.d. á gólfið? Kork eða dúk? Er betra að kaupa hefðbundna eldavél með ofni – eða hafa þetta í­ aðskildum einingum, með ofinn í­ brjósthæð og helluborðið við hliðina, eins og maður hefur séð? Ó, mig auman!

# # # # # # # # # # # # #

AZ Alkmaar tapaði fyrir Feyenoord í­ hollensku deildinni – þar með er sigur PSV Eindhoven nær örugglega í­ höfn. Alkmaar er þó í­ traustu öðru sæti. Svekkjandi, maður var að vona að einhverjum tækist að rjúfa einokun stóru liðanna þriggja í­ Hollandi.

Velgengni Alkmaar er þó ekkert öskubusku-ævintýri. Hún er bara tilkomin vegna þess að peningamenn standa á bak við klúbbinn og láta streyma úr pyngjum sí­num. Það er ekki sami sjarminn við það…

# # # # # # # # # # # # #

Mikið er fjallað um dauða páfans. Hins vegar hef ég enga umfjöllun séð um Johnnie Cochran, lögfræðing O.J. Simpsons, sem frægt varð. Hann dó ví­st á dögunum.

Það er raunar ósanngjarnt að Cochrans sé bara minnst í­ tengslum við O.J.-réttarhöldin. Hann var t.d. viðriðin fræg réttarhöld yfir uppistands-grí­naranum Lenny Bruce, þá reyndar sem fulltrúi saksóknara.

Hann vann merkt starf sem verjandi ýmissa meðlima Svörtu pardusdýranna og var brautryðjandi í­ baráttunni gegn lögregluofbeldi – þar sem hann sótti mál fyrir fjölda fólks sem lögguhrottar höfðu barið í­ plokkfisk.

1993 tókst honum að bjarga Michael Jackson. Núna hefði Jackson karlinn getað notað krafta hans…