Aðalfrétt Fréttablaðsins í dag fjallar um samgönguáætlun til ársins 2008. Athyglisvert að bera saman umfjöllun Moggans og Fréttablaðsins um málið – Mogginn tekur við fréttatilkynningu ráðuneytisins og leggur áherslu á hversu mikið renna muni til málaflokksins í heild, en Fréttablaðið staðnæmist við einstakar framkvæmdir sem þar er ýmist að finna eða ekki að finna.
Sundabraut og mislæg gatnamót á Miklubraut/Kringlumýrarbraut eru ekki á dagskránni. Ekki get ég sagt að það trufli mig að ráði – þótt eitthvað verði að gera til að draga úr slysum á síðarnefnda staðnum.
Verra var að heyra að ekki eigi að fara af stað vinna við nein jarðgöng eftir að núverandi verkefnum lýkur. Þetta eru slæmar fréttir, enda mörg aðkallandi verkefni í þeim geira. Sjálfur hefði ég talið göng undir Hrafnseyrarheiðina eðlilegustu og nærtækustu framkvæmdina. Að þeim loknum væri rétt að huga að frekari framkvæmdum fyrir austan til að tengja Fjarðabyggð og Hérað betur saman.
Merkileg er fóbía margra gagnvart jarðgangagerð í samgöngumálum. Maður heyrir ekki viðlíka æsing út af ýmsum öðrum framkvæmdum, svo sem uppbyggingu vega og brúarsmíði. Líkt og með aðrar framkvæmdir eru sum jarðgöng tiltölulega ódýr en önnur kostnaðarsöm. Þetta þarf einfaldlega að meta í hverju tilviki fyrir sig.
Að sumu leyti minnir umræðan um jarðgöng mig á eldra fólk sem óttast leigubíla – og telur það að keyra í leigubíl vera mesta bruðl á jarðríki, vegna þess að leigubílar voru frekar dýrir á sjötta áratugnum eða eitthvað… Skringilegust er þó mýtan um að Færeyingar hafi gert sjálfa sig gjaldþrota með borun jarðganga fyrr á árum – meðan veruleikinn er sá að á þeim tíma þegar hvað flest jarðgöng voru boruð í Færeyjum, voru samgöngumál alfarið í höndum Dana. Færeysku jarðgöngin voru því greidd af samgöngufé danska ríkisins og því alls ekki um það að ræða að Færeyingar hafi verið að sóa fé sem þeir hefðu getað nýtt í annað.
Annars bíð ég eftir að sjá hvað malbiks- og Evróvisíonnördið úr Kópavoginum hefur um þessa samgönuáætlun að segja.