Mér finnst ritdeilur í sjálfu sér ekki leiðinlegar. Þær verða það bara þegar ekki er um nein skoðanaskipti að ræða, heldur karp þar sem hvorugur aðilin þokast neitt áfram. Held ég bíti samt á jaxlinn og skrifi enn eina færsluna um Egil Helgason og staðreyndameðferð hans.
Ég gef mér að ég sé nafnlausi sagnfræðingurinn sem Egill skrifar um í nýjustu færslu sinni þar sem segir:
„Sagnfræðingur rauk upp vegna þess að ég hafði nefnt að ekki væri hægt að jafna saman kúguninni á keisaratímanum og á tíma bolsévíka. Taldi öll mín skrif ómarktæk vegna þessa.“
Ef þessi nafnlausi sagnfræðingur er allt annar maður, þá fellur afgangurinn af þessari færslu dauður og ómerkur. En ef það er eins og mig grunar, þá hef ég þetta um málið að segja:
Færsla mín um Sovétríkjagrein Egils var ekki efnislegt svar við málflutningi hans og niðurstöðum greinar hans. Með því er ekki þar með sagt að ég sé sammála öllu í túlkun Egils á þessari sögu, en ef ég hefði ætlað að hjóla í sjálfa greinina og niðurstöður hennar hefði það kallað á miklu meiri vinnu og flóknari rökstuðning. Ég er ekki slíkt fífl að halda að með því að benda á eina villu í málflutningi einhvers manns, sé búið að slá hann út af borðinu og gera hann marklausan.
Ég er þeirrar skoðunar að hægt sé að hrekja ýmis atriði í grein Egils, en önnur geti staðið fyrir sínu. Hvernig hann kemst að þeirri niðurstöðu að ég telji mig hafa afsannað grein hans skil ég ekki. Mér sýnist helst að hann sé að lesa eitthvað slíkt út úr athugasemdum frá misnafnlausu fólki á sinni eigin síðu.
Það sem ég gerði hins vegar í upphaflegu færslunni, var að benda á mjög banal sagnfræðilega staðhæfingu í grein Egils. Setninguna: „Það tók bolsévíka ekki nema svona vikutíma að myrða jafnmarga og keisarastjórnin hafði látið drepa á mörg hundruð árum.“
Ég held að 99% fólks sem las þessa setningu – hafi lagt sama skilning í hana og ég: að í henni fælist annars vegar staðhæfing um morðæði bolsévika, en hins vegar væri stórkostlega dregið úr drápum keisarastjórnarinnar. Og þótt Egill sé ófáanlegur til að viðurkenna að upphaflega setningin hafi verið klárlega röng og villandi, hefur hann fallist á það óbeint – fyrst með því að breyta henni og síðar með því að reyna að toga hana og teygja með skilgreiningum.
En hvaða máli skiptir þetta? Til hvers að karpa um þessa tilteknu setningu?
Hefðu niðurstöður greinar Egils Helgasonar breyst á nokkurn hátt þó að setningin hefði horfið? Auðvitað ekki. Boðskapur greinarinnar er sú byltingarkennda niðurstaða að Stalín hafi verið vondur. Hvort öryggislögregla keisarans hafi verið skipuð ljúflingum eða hranalegum hrottum hefur lítil áhrif á þá niðurstöðu.
Þetta snýst með öðrum orðum ekki um niðurstöður, heldur sagnfræðileg vinnubrögð.
Sagnfræðingur sem skrifaði um galdrabrennur á Íslandi – og myndi tala um þau hundruð manna sem farið hefðu á bálköstinn – væri í vondum málum. Þegar hann væri leiðréttur og bent á að íslensk fórnarlömb galdrabrenna hefðu verið nær 20 talsins – væri lítil vörn fólgin í því að hamra á illsku þess að brenna fólk á báli. Það er engin stuðningsyfirlýsing við kaþólsku kirkjuna fólgin í því að halda staðreyndum til haga. – Góður málstaður eða trúverðugar niðurstöður geta ekki réttlætt rangar staðhæfingar í sagnfræði.
Því miður eru kröfur um sagnfræðileg vinnubrögð ekki hátt skrifaðar í umfjöllun um utanríkismál. Þegar kemur að því að ræða um illræmdar ríkisstjórnir eða einræðisherra, er lenska að slengja bara fram einhverjum fórnarlambatölum.
Tökum umræðuna um írak sem dæmi. Þegar Davíð Oddsson og Halldór ísgrímsson ræða um Saddam Hussein, þá fer það eftir dagsforminu hvort hann er kallaður maðurinn sem drap „hundruðir þúsunda“; „milljón“; „meira en milljón“ eða jafnvel „milljónir“. – Fréttastofurnar voru undir sömu sök seldar. Þegar rætt var um fjölda Kúrda sem einræðisherrann hafði á samviskunni, gat talan hlaupið frá hundrað þúsund upp í þrjúhundruð þúsund frá hádegisfréttum til kvöldfrétta. Á sjálfu sér var mönnum alveg sama – því hver nennti að benda á misræmið? Þeir hinir sömu væru þá bara stimplaðir Saddams-vinir.
Reynið að fylgjast með því þegar sagt er frá þjóðarmorðunum í Rwanda. – Þar slengja menn bara fram einhverjum tölum. Tölfræðin skiptir ekki máli því niðurstaðan liggur fyrir…
Fyrir sagnfræðing er óþolandi að fylgjast með umfjöllun á þessum nótum. Ég skil ekki hvers vegna nokkur maður grefur sjálfviljugur undan eigin málstað með því að styðja hann vondum rökum.
Það er nú ekki flóknara.