Eins og fram hefur komið, ætla ég ekki að fara oní saumana á sagnfræðinni í Sovét-greinum Egils Helgasonar, þó ég hafi bent á eina verulega vonda staðhæfingu. Almennileg umfjöllun um efnið tæki meiri tíma en ég nenni að verja í það núna, auk þess sem ég er ekkert sérstaklega inni í þessari sögu. Hef meira sinnt öðrum viðfangsefnum í sagnfræðinni.
Góður félagi minn, Svanur Pétursson, skrifar hins vegar langa bloggfærslu um DV-greinina títtnefndu. Svanur er sagnfræðingur, sem er á leið í doktorsnám í BNA. Hann hefur t.a.m. verið aðstoðarkennari hjá Val Ingimundarsyni í samtímasögu í Háskólanum.
Á færslunni setur Svanur skrif Egils í samhengi við historíógrafíu tímabilsins síðustu áratugi. Fróðleg grein sem við Egill höfum báðir gott af að lesa, enda höfundurinn mun fróðari en við báðir um þetta tímabil í sögunni.
# # # # # # # # # # # # #
Nágranni okkar hér í Mánagötunni þarf að henda miklu rusli – svo miklu að ein ruslatunna dugar ekki fyrir vikuna. Frekar en að leigja aðra tunnu, dýrum dómum, hefur hann fengið að smeygja umframruslapokum í hálftómar tunnur hér og þar í hverfinu.
Þessir tímar eru liðnir.
Granninn hefur nefnilega fundið eitursnjalla lausn á ruslvandamálinu. Hann tekur stóra sleggju og þjappar þannig ruslinu oní tunnuna. Að hans sögn er þetta betra fyrir ruslakarlana, þar sem sorpið rennur úr tunnunni í einum köggli.
Spurning hvort Sorpa ætti ekki að kynna þessa leið fyrir almenningi, til að fækka tunnunum í borginni? Sleggju á hvert heimili!