Samtökum áhugafólks um endurheimt votlendis virðist hafa bæst öflugur liðsstyrkur þar sem er Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík.
Á opnuauglýsingu þeirra í Mogganum í dag er Reykjavíkurflugvöllur á bak og burt, en ekki teiknuð ný byggð í staðinn – þess í stað er Vatnsmýrin endurheimt, sem hljóta að teljast gleðitíðindi fyrir endur bæjarins. (Reyndar kemur fram í textanum með kortinu að gert sé ráð fyrir einhverjum samræðustjórnmálum varðandi framtíð Vatnsmýrarsvæðisins.)
Athyglisvert er að samkvæmt kortinu er Hlíðarendasvæðið eins og í dag, þannig að ekki er gert ráð fyrir stórhýsunum sem nú eru inni á skipulaginu og sem fjallað hefur verið um hér á blogginu. – Vilja Sjálfstæðismenn taka það mál til endurskoðunar?
Því miður nær kortið ekki út að Norðlingaholtshverfinu, þannig að ekki er hægt að sjá hversu langt í austur Sjálfstæðismenn sjá byggðina fyrir sér. Nýju Mogga-höfuðstöðvarnar rata ekki inn á uppdráttinn og ekki að sjá að íhaldið hafi trú á Hádegismóa-svæðinu, eða hvað þetta nú heitir aftur.
Fyrir okkur Framara er þó athyglisverðast að sjá að framtíðarsýn Sjálfstæðisflokksins gerir ekki ráð fyrir neinni byggð í hlíðum Úlfarsfells. Þar gera núverandi borgaryfirvöld ráð fyrir byggingu gríðarstórs hverfis – og það er þetta hverfi sem FRAM á að þjónusta með flutningunum austur eftir. – Vilja Sjálfstæðismenn slá þau áform algjörlega af? FRAM á Geldinganesið – er það kannski hugmyndin?