Blaðið er skringilega uppsett dagblað. Þar er auglýsingum skotið inn í fréttir, líkt og um myndskreytingu með viðkomandi frétt sé að ræða. Kannski er þetta með ráðum gert, þannig að lesendur staðnæmist fremur við auglýsingamyndirnar fyrir slysni. Stundum getur þetta hins vegar klikkað illilega.
Á Blaðinu í dag er auglýsing fyrir Turtle-Wax bílabón. Auglýsingin er stór mynd af Turtle-Wax flösku, án þess að nokkur texti fylgi með. Mynd þessari var skotið inn í miðja frétt – sem var með fyrirsögn á þá leið að viðskiptasvikamyllur færu af stað af fullum krafti á sumrin. Greinin segir svo frá svikahröppum sem svíkja peninga út úr fyrirtækjum og herja sérstaklega á sumarafleysingafólk.
Við lestur greinarinnar leitar þó bara ein spurning á lesandann: Hvernig tengist Turtle-Wax bílabón þessum svikamyllum?
Hvernig nota svikahrapparnir bílabón í svikráðum sínum? Er Turtle-Wax bílabón kannski bara einhver hroði sem vondir menn pranga inn á saklaust fólk?
Þetta fáum við aldrei að vita. En hitt er ljóst að ég á alltaf eftir að tengja Turtle-Wax við svik og pretti hér eftir.