Ég er í skralli.
Klukkan níu í morgun hófst ég handa við að undirbúa Mánagötuna fyrir komu Eiríks smiðs, sem setur upp eldhúsinnréttinguna og svefnherbergisskápana frá Axis. Eftir að hann mætti og við vorum búnir að endurraða efninu og taka ákvarðanir um 2-3 vafamál, vatt ég mér í að pilla niður gömlu skápana með kúbeini, skrúfjárni sög og dverghamri.
Skáparnir voru lítið vandamál og ég dútlaði við þetta – hélt að ég þyrfti að drepa tímann. Þá kom að seinni hluta verksins – að rífa niður veggina umhverfis fatahengið á ganginum, sem nú á að verða hluti af nýju skápasamstæðunni. Þessir veggir hélt ég að væru úr léttum krossviðsplötum eða eitthvað álíka. Onei, sú var ekki raunin.
Helvítis skáphliðarnar reyndust jafnrammgerðar og skáparnir í eldhúsinu sem voru að drepa mig fyrr í sumar. Þetta er forskalað með rígnegldu vírneti að framan og aftan umhverfis þrefalt timburlag og með góðri múrhúð. Ég barði á þessu frá 10 um morguninn til að ganga fimm þegar pabbi slóst í hópinn. Um sjöleytið mátti verkinu heita lokið. Held að símalínan inn í svefnherbergið hafi verið meðal þess sem varð undan að láta. Netmál heimilisins verða því tekin til endurskoðunar.
Rosalega bölvaði ég múraranum eða smiðnum sem gekk svona frá innviðum hússins fyrir rúmum 65 árum. Ætli fólk muni ekki í framtíðinni senda álíka kaldar kveðjur þeim smiðum sem fríka út með nýju og fínu naglabyssurnar sínar og skjóta 100 nöglum þar sem 10 ættu að duga?
# # # # # # # # # # # # #
Lesa Norðfirðingar þessa síðu? Ég er jú einu sinni tengdasonur bæjarins…
Ef svo er, væri ágætt að vita hvort Rauða torgið sé með Sky eða hvort íslensku stöðvarnar séu látnar duga – er ekki sýnt talsvert af fótbolta þarna ennþá, það var amk fyrst eftir að staðurinn opnaði.