Við Guðni ígústsson eigum við sömu fötlun að stríða. DV veltir sér upp úr þessum takmörkunum Guðna á baksíðu í gær með stækkaðri ljósmynd. Kannski má ég eiga von á sömu meðhöndlun í framtíðinni ef ég álpast í að taka þátt í opinberri undirritun samninga.
VIð Guðni kunnum sem sagt hvorugur að halda almennilega á penna. Þess í stað látum við pennann (eða blýantinn) hvíla milli vísifingurs og löngutangar og styðjum með þumalfingri við oddinn.
Þetta skringilega skriftarlag vandi ég mig á um leið og ég lærði að draga til stafs. Allir kennararnir mínir í barnaskóla pönkuðust á mér fyrir þetta og reyndar voru ýmsar brellur í þessu skyni. Þegar komið var upp í tólf ára bekk gafst skólakerfið upp. Þá tók Óli lögga (sem hét svo vegna þess að hann starfaði sem lögregluþjónn á sumrin) við bekkjarkennslunni hjá okkur í C-bekknum. Hann var fyrsti kennarinn minn sem ekki amaðist við því hvernig ég hélt á penna. Fyrir það var ég honum alltaf þakklátur og kunni vel að meta hann frá fyrsta degi.
Á gaggó kom einn kennarinn minn – Kara, eiginkona Alfreðs Gíslasonar handboltakappa – til mín og sagði að skriftin mín væri ólæsilegt krot, sem líklega skýrðist af því að ég héldi á blýanti eins og fimm ára krakki. Hún spurði mig hvað ég hefði hugsað mér að gera í málinu? Eftir nokkrar samningaviðræður komumst við að þeirri niðurstöðu að það væri of seint að kenna gömlum hundi að sitja. Ég myndi ekki læra að halda á penna úr þessu, en til að hægt væri að rýna í párið mitt myndi ég hætta að skrfa skrifstafi (helvítis ítölsku skriftina sem mín kynslóð lærði). Þess í stað kom ég mér upp færni í að skrifa mjög hratt með prentstöfum. Það hefur þann eina ókost að ég get orðið afskaplega þreyttur í fingrunum við miklar skriftir, t.d. í prófum. Að öðru leyti hef ég ekki þurft að kvarta og krotið skilst.
Við Guðni erum sem sagt á sama báti.