Á bloggheimum ríkir mikill æsingur yfir því að DV hafi slegið því upp á forsíðu að jólasveinninn sé ekki til. – Spurning hvort hér sé á ferðinni angi af deilum DV og ístþórs Magnússonar, samanber jólasveinabúninginn fræga sem hann íklæddist um árið?
Sjálfur held ég að jólasveinatrúin – eða öllu heldur skipbrot hennar – hljóti að skipta miklu í þroskaferli hvers barns.
Börn fer yfirleitt snemma að gruna að jólasveinninn sé ekki til. Þessi uppgötvun gerist sjaldnast í einni sviphendingu, heldur er hún ferli þar sem börnin leita sannana, t.d. með því að reyna að vaka eftir sveinka, rykkja í skeggið á jólasveininum á jólatrésskemmtuninni o.s.frv. Ég og Sigtryggur æskufélagi minn urðum til dæmis mjög roggnir þegar okkur tókst að koma með afdráttarlausa sönnun fyrir blekkingarleiknum: við mættum nefnilega hvor á sitt jólaballið og á báðum stöðum var Hurðaskellir að troða upp á sama tíma (og þeir voru afar ólíkir í útliti).
Að afsanna jólasveinin er því holl hugarleikfimi.
Ein helsta ástæða þess að börn trúa þó þetta lengi á jólasveinin er sú staðreynd að foreldrarnir bakka upp lygina. Börn trúa foreldrum sínum og eru því til í að horfa framhjá vísbendingum um hið gagnstæða. Það er því mikil opinberun þegar barnið kemst með eigin rökhugsun að þeirri niðurstöðu að foreldrarnir hafi logið að því.
Oftar en ekki svara börnin fyrir sig með því að ljúga á móti. Þau sjá í gegnum sveinka-sögurnar, en þykjast trúa til að fá gotterí og leikföng. Hverjum manni er nauðsynlegt að kunna að skrökva lítillega í lífinu og jólasveinalygin er því frábær æfing.
Þannig stuðlar jólasveinninn að heilbrigðum lygavef sem öll fjölskyldan getur sameinast um.