Á öllu fréttafarganinu af „stóra teiknimyndamálinu“ (alltaf skemmtilegt þegar fjölmiðlar búa til nöfn meðforskeytinu „stóra“) hef ég oftar en einu sinni og oftar en tvisvar rekist á skrif eða ummæli þess efnis hversu alvarlegt það sé að teikningunum alræmdu sé mótmælt með fánabrennum. Að brenna þjóðfána lands er talið slaga upp í hryðjuverk.
Á Bandaríkjunum þætti málið ekki alveg svona einfalt. Þar hefur í mörg ár verið tekist á um það hvort rétturinn til að tjá andúð sína með því að brenna fána sé ekki varinn af sömu tjáningafrelsisákvæðum og menn tala sem hæst um núna. Dómstólar hafa oftar en ekki tekið þessa línu – en stjórnmálamenn viljað margir hverjir breyta þessu. Þannig hafa hægrimenn sérstaklega verið hlynntir því að sérlög væru sett – helst í stjórnarskránna – sem taki verji þjóðfánann sérstaklega.
Svo menn haldi ekki að tilgangur þessarar færslu sé að skammast út í hægrisinnaða bandaríska ráðamenn, er rétt að taka það fram að mörg ríki hafa sérstök lög gegn vanvirðingu við þjóðfána sem fela í sér refsingar sem geta verið býsna harðar. Líklega eru því fáir staðir sem „öruggara“ er að brenna þjóðfána sinn en í sumum ríkjum BNA.
Þjóðfánar, önnur þjóðernistákn og trúarbrögð njóta yfirleitt meiri verndar í löggjöf þjóða en önnur fyrirbæri. Guðlast er refsivert í öllum samfélögum, held ég að óhætt sé að fullyrða. Auðvitað eru refsingarnar misþungar og viðurlögunum misoft beitt – en reynið að segja Úlfari Þormóðssyni fyrrum útgefanda Spegilsins – að Íslendingar kippi sér ekki upp við að gert sé grín að guði! (Reyndar finnst mér með ólíkindum að enginn fjölmiðill hafi fattað tenginguna við mál Úlfars og rifjað það síðustu daga.)
Erlendir ráðamenn njóta sömuleiðis sérstakrar verndar í ýmsum samfélögum, t.a.m. á Íslandi. Á reynd þýðir það að ekki er fyllilega óhætt að úthúða leiðtogum „vinaþjóða“. Þannig má að jafnaði segja hvað sem er um ráðamenn í þriðja heiminum, kalla þá böðla, drápara og öðrum ónefnum – hvort sem það er satt eða ekki. Íslenskur ráðherra mátti kalla Gorbatsjof Sovétforseta „blóðhund“ án athugasemda, en þegar Jónas Kristjánsson kallaði Boris Jeltsín „róna“, var kallað eftir rannsókn á málinu – enda Rússar þá orðnir okkar menn. (Sú staðreynd að Jeltsín var augljóslega fyllibytta reyndist algjört aukaatriði í þessu sambandi.)
Á hverjum mánuði berast okkur fregnir af skerðingu á tjáningarfrelsi á Vesturlöndum. Fólk er handtekið fyrir að reyna að koma boðskap á framfæri, látið hylja boðskap sinn eða ferðafrelsi þess takmarkað. Þessi skerðing fær litla umfjöllun í fjölmiðlum, kannski vegna þess að hún er ekki tilkomin vegna þrýstings frá óðamála, sískeggjuðum múslimum í fjarlægum löndum heldur meðvituð stefna ríkisstjórna í okkar heimshluta og framkvæmd í nafni stríðsins gegn hryðjuverkum – stríðs sem skilgreinir þá sem hryðjuverkamenn sem ganga í bolum með óþægileg slagorð framan á sér.