Það hvimleiðasta við Múhameðsmyndamálið er hversu margir nota það til að upphefja sjálfa sig og slá sig til riddara í baráttunni fyrir tjáningarfrelsi – sem sagt er hornsteinn menningar okkar. Hvaða dáð er fólgin í því að verja rétt manna til að teikna skrípamyndir sem okkur Evrópubúum (sem ekki erum múslimar) finnst meinleysislegar? Það segir ekki mikið um ást okkar á málfrelsinu að umbera skrif sem aðrir telja móðgandi. Hinn raunverulegi prófsteinn er hvernig við bregðumst við skrifum sem misbjóða okkur sjálfum.
Á því ljósi er eftirtektarvert að horfa upp á fjölmiðla þegja þunnu hljóði yfir því þegar breski sagnfræðingurinn David Irving er dæmdur í þriggja ára fangelsi í Austurríki fyrir skrif sín. Irving er ekki dæmdur fyrir að hvetja til ofbeldis, heldur fyrir að halda fram söguskoðun. Söguskoðun Irvings er meðal annars sú að fjöldi gyðinga sem drepnir voru á árum síðari heimsstyrjaldarinnar sé stórlega ofmetinn og að dauða fjölda þeirra megi fremur skýra með sjúkdómum en skipulagðri útrýmingarherferð nasista.
Austurríki er eitt margra ríkja þar sem það telst glæpur að reyna að færa rök fyrir öðru en viðtekinni söguskoðun um helförina. Slík skrif – sem flestir myndu kalla ótrúverðugar samsæriskenningar – eru talin svo meiðandi fyrir stóra hópa fólks að þeir sem senda þau frá sér eru dæmdir í fangelsi.
David Irving er óskemmtilegur karakter með óviðfeldnar skoðanir. Þess vegna fást fáir til að verja hann. Fáir halda því fram á opinberum vettvangi að „okkur beri að styðja tjáningarfrelsið“ með því að endurtaka skrif Irvings sem oftast og víðast. Ríkisstjórnir Evrópu senda David Irving ekki samúðarskeyti – þvert á móti hafa þær þrýst á Austurríkismenn að refsa af hörku fyrir skrif af þessu tagi.
Á vettvangi Evrópusambandsins hefur t.d. um alllangt skeið verið rætt um að banna hið ævaforna indverska tákn, hakakrossinn.
Einhvern veginn þætti mér það ólíkt kjarkaðri nálgun hjá unnendum tjáningarfrelsins ef þeir kæmu nú til varnar David Irving og rétti manna til að birta mynd af hakakrossinum, en að hampa ritstjórum Jótlandspóstins sem hetjum. Það er eitthvað svo billegt við að halda bara í prinsipin þegar þau eru áreynslulaus.