Við höfum staðið í stórræðum á Minjasafninu síðustu tvo daga. Geymslan í kjallaranum hefur verið tekin í gegn og ýmsu hent. Reyndar er ekki verið að henda safngripum, heldur ýmiskonar sýningarbúnaði – s.s. skápum, flekum og kössum af ýmsum stærðum og gerðum.
ístæðan fyrir því að svona hlutir safnast fyrir í geymslunni er sú að yfirleitt kostaði gerð þeirra tíma, fé og fyrirhöfn – þess vegna eru þeir settir til hliðar í veikri von um að síðar geti þeir nýst til sýningarhalds. Það reynist auðvitað aldrei ganga eftir.
Til að gera verkefnið enn erfiðara, er tilhneiging til þess hjá fyrirtækinu að senda mér svona gripi – t.d. fleka og sýningarspjöld sem tekin hafa verið niður annars staðar. Menn tíma þá ekki að henda sýningum sem kostuðu drjúgan skilding og hugga sig við að „kannski geti safnið notað þetta“. Þannig lumar safnið á óteljandi innrömmuðum myndum frá sýningum sem settar hafa verið upp í tengslum við einhverja áfanga í uppbyggingu kerfisins.
Flutningarnir frá Suðurlandsbraut í nýju höfuðstöðvarnar á Bæjarhálsi voru okkur þó erfiðastar. Þá fylltist allt af dóti sem menn kunnu ekki við að henda, en passaði þó engan veginn á nýja staðnum (húsgögn, myndir o.þ.h.) Við erum enn, fimm árum síðar, að vinda ofan af þeim ósköpum.
Með því að ryðja eins og einu bílhlassi úr kjallaranum á haugana, getum við komið fyrir hlutum sem í dag þvælast fyrir okkur á vinnusvæðinu í Rafheimum og í hliðarsalnum þar, sem nú er fullur af drasli. Þarna sjáum við fyrir okkur að halda áfram með þau áform að koma upp aðstöðu til að þjóna náttúrufræðikennslu með tengingu við Elliðaárdalinn. Þetta verkefni vorum við Óli heitinn komnir langt með að skipuleggja þegar hann dó, en ekkert hefur gerst síðan.
Það er gaman í vinnunni um þessar mundir.
# # # # # # # # # # # # #
Verð ég ekki eiginlega að halda með Úkraínu í söngvakeppninni úr þessu? Ég held það.