Komum til Reykjavíkur með síðdegisvélinni. Ekki upplifði ég nú mikið af þessum verslunarmannahátíðarhöldum á Norðfirði, enda lá ég með bölvaða flensu eða kvef nær allan tímann. Steinunn skemmti sér hins vegar vel og Ólína var í essinu sínu að leika við afa sinn og skyldfólk. Það dugar mér.
# # # # # # # # # # # # #
Var netlaus allan tímann fyrir austan (ó, hvað það getur nú hreinsað hugann að losna við þetta helvíti í smátíma öðru hvoru). Fyrir vikið er ég fyrst nú í kvöld að lesa umræðurnar í kjölfar síðustu færslu. Var að spá í að blanda mér í þær, en finnst það einhvern veginn hálfaulalegt svona tæpri viku seinna. Þess utan sýnist mér þær að mestu snúast um allt aðra hluti en upphaflega færslan.
En úr því að við erum að tala um „byltingarkenndar söguskýringar“ – þá var löng frétt á RÚV kl. 18 þess efnis að hernaðarsagnfræðingur telji sig hafa dregið fram merkileg skjöl sem sýni fram á að yfirmenn sænska hersins hafi árið 1957 reiknað með því að ef Sovétríkin réðust inn í Svíþjóð myndi NATO hefja kjarnorkustríð. Þetta á víst að vera voða merkileg uppgötvun og sýna fram á að Svíþjóð hafi raun verið auka-aðili að NATO.
Ekki er ég nú upprifinn yfir þessum afhjúpunum. Hverjum finnst það mikil tíðindi að heyra af því að á sjötta áratugnum hafi Evrópa skipst upp í tvö áhrifasvæði og að öll ríki álfunnar, hvort sem þau voru aðilar að hernaðarbandalögunum tveimur eða ekki, féllu undir annað hvort svæðið. Innan þessara svæða fóru risaveldin sínu fram (Sovétmenn í Ungverjalandi og víðar – Bandaríkjamenn í Grikklandi, ítalíu og víðar) en allar aðgerðir utan yfirráðasvæðanna hefðu getað komið af stað styrjöld. Þetta vita allir. Og hver er þá nákvæmlega fréttin í niðurstöðum nýdoktorsins?
# # # # # # # # # # # # #
Góð fótboltahelgi á Bretlandseyjum. Luton skellti Leicester í upphafsleik B-deildar. Leikurinn var á Sky, en útsendingu var hvergi að finna á Neskaupstað (og ég hvort sem er veikur). Á þriðjudagskvöldið mætum við svo vinum mínum í Sheffield Wednesday. Bíð spenntur eftir að geta strítt Björgvin Inga og Jóhannesi eftir enn einn sigurinn á þeim.
Hearts vann svo góðan sigur á Celtic í 2. umferð skosku úrvalsdeildarinnar (önnur bein útsending sem ég hefði horft á í Reykjavík). Ég bind miklar vonir við þetta tímabil í Skotlandi. Nú þarf Hearts bara að komast í riðlakeppnina í Meistaradeildinni (og græða skrilljónir) og taka sjálfan skoska meistaratitilinn með trompi í vor. Við Páll frændi minn munum þá hafa ýmsu að fagna í vetur.