Góð helgi að baki.
Við Steinunn lögðum af stað úr bænum eldsnemma á laugardagsmorgni. Gríslingurinn var skilinn eftir hjá afa og ömmu. Leiðin lá til Akureyrar í alhliða menningar- og knattspyrnuferð.
FRAM og Þór mættust kl. 14. Við FRAMararnir í stúkunni fylltum ekki tuginn, en létum vel í okkur heyra. Liðið tapaði – en ósigurinn reyndist súrsætur, því tap HK-manna sunnan heiða þýddi að meistaratitillinn væri í höfn. Þegar við bættist að Luton lagði Crystal Palace 2:1, gat ég ekki annað en verið sáttur.
Um kvöldið var svo komið að hinum aðaltilgangi ferðarinnar – heimsókn á veitingahúsið Halastjörnuna í Öxnadal. Halastjarnan er einhver óvenjulegasti veitingastaður á Íslandi, en jafnframt einn sá besti. Hann er til húsa í gömlum sveitabæ. Staðurinn hefur ekki nema fimm borð og opnunartíminn – fyrir utan hásumarið – er að mestu samkomulagsatriði við rekstraraðilana.
Maturinn var frábær. Hangikjöts/rjómaostsforrétturinn var afbragð. Lambakjötsaðalrétturinn og eftirrétturinn voru sömuleiðis fínir. Á Halastjörnunni sest maður ekki niður og velur af stórum matseðli – maður étur einfaldlega það sem er í boði. Þannig er tryggt að maturinn sé eins ferskur og kostur er.
Sonja, sem var í senn kokkur og yfirþjónn meðan á máltíðinni stóð, gaf sér góðan tíma til að spjalla – enda vorum við einu gestirnir. Hún sýndi okkur sömuleiðis húsið, sem er frábærlega skemmtilegt. Síðast en ekki síst var verðið mjög sanngjarnt.
Hér með skal því lýst yfir að Halastjarnan verður plögguð við öll tækifæri hér á blogginu. Það er staður sem íslenskir matgæðingar mega ekki láta fram hjá sér fara!
# # # # # # # # # # # # #
Gistum á Hótel Hörpu (sem er framlenging af Hótel KEA). Fyrir svefninn litum við aðeins inn á hótelbarinn. Þar var ágætis úrval af viskýi, en hálfkyndugt þó að átta af 15-16 flöskum væru Macallan af öllum mögulegum og ómögulegum aldursskeiðum.
Á bakaleiðinni stoppuðum við að Bjargi hjá Ólínu eldri og Valda. Komum daginn eftir réttir í sveitinni. Að ári mætum við kannski með Ólínu í réttirnar. Líklega mun hún þó ekki botna mikið í þeim fyrr en hún verður 4-5 ára. Ef hún líkist pabba sínum, á barnið reyndar ekki eftir að gefa mikið fyrir sveitalíf og samneyti við ferfætlinga.
# # # # # # # # # # # # #
Buðum Skúla Sig. og Sverri í kvöldmat. Þar var mikið rætt um námskeiðið, sem okkur finnst fara mjög vel af stað. Sverrir fór snemma, enda á leið til Póllands eldsnemma í fyrramálið. Skúli stekkur svo úr landi á fimmtudagsmorguninn, sem þýðir að ég hef nemendurna einn fyrir mig á fimmtudaginn.